Félag viðskipta- og hagfræðinga (FVH) hefur útnefnt Ernu Björgu Sverrisdóttur sem hagfræðing ársins 2023. Það var forseti Íslands sem afhenti verðlaunin þann 7. júní sl.
Í fréttatilkynningu segir að það hafi verið einróma mat dómnefndar að velja Ernu Björgu sem hagfræðing ársins 2023. Viðurkenninguna fái hún fyrir störf sín sem aðalhagfræðingur Arion banka. Í því starfi hafi henni tekist vel til að nálgast hagfræði á fróðlegan og skemmtilegan hátt á opinberum vettvangi, í viðtölum og með greinaskrifum. Einnig hafi hún sýnt í verki að hún sé óhrædd við að synda á móti straumnum með sínum skoðunum og þori að spyrja gagnrýninna spurninga. „Erna hefur með framferði sínu vakið áhuga á fræðunum og er flott fyrirmynd fyrir ungt fólk sem leggur stund á nám í viðskipta- eða hagfræðideildum háskóla landsins,“ segir í tilkynningunni.
Við móttöku verðlaunanna sagði Erna m.a., samkvæmt tilkynningunni:
,,Oft á tíðum þarf hagfræðin ekki að vera svona flókin, hún fæst við málefni sem snertir okkur öll, hvort sem það er húsnæðismarkaðurinn, kjaraviðræður eða einfaldlega hversu oft við förum til útlanda. Á tímum sem þessum, þegar mikil ólga ríkir í samfélaginu, verðbólgan er mikil, vextir að hækka og flókin staða á vinnumarkaði þá skiptir svo miklu máli leggja sitt af mörkum til að halda umræðunni upplýstri og frá skotgröfunum.”