Húsasmiðjan hefur tekið í notkun fyrsta fjölnota rafmagnsflutningabílinn á Íslandi með öflugum rafmagnskrana, sérútbúinn fyrir flutning á byggingarefni, segir í tilkynningu frá Húsasmiðjunni.
Þá kemur fram að bíllinn sé ekki einungis sá fyrsti hér á landi heldur einn sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum með fyrrnefndum rafmagnskrana.
Rafmagnsflutningabíllinn er af gerðinni Volvo FE og er fjölnota vörubíll sem gengur fyrir rafmagni.
Þá sé reiknað með að þessi rafvörubíll keyri um 2.600 km á mánuði að jafnaði og með því sé komið í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda upp á u.þ.b. 3 tonn koltvísýringsígilda eða 37 tonn á ári. Það á eingöngu við um sjálfan bílinn því kraninn er einnig knúinn rafmagni sem kemur í veg fyrir staðbundna mengun á verkstað, að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Með þessum nýja flutningabíl tökum við stórt skref í orkuskiptum. Við munum m.a. leggja áherslu á að bjóða þeim aðilum sem eru í umhverfisvottuðum byggingaframkvæmdum upp á þennan valkost þ.e. að fá byggingarefnið flutt með enn lægra kolefnisspori á verkstað,“ er haft eftir Árna Stefánssyni, forstjóra Húsasmiðjunnar, í tilkynningunni.