Brimgarðar ehf., stærsti eigandi Eikar fasteignafélags, munu ekki samþykkja yfirtökutilboð Regins í Eik sem lagt var fram fram 8. júní sl.
Þetta staðfestir Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, í samtali við Morgunblaðið. Hann hvetur stjórn Regins til að falla frá hugmyndum um að leggja fram yfirtökutilboð, í ljósi eindreginnar andstöðu stærsta hluthafa Eikar við áformin.
Reginn lagði sem kunnugt er fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar með það fyrir augum að sameina félögin. Tilboðið var háð fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þá þurfa 67% hluthafa Eikar að samþykkja tilboðið.
Brimgarðar ehf., dótturfélag Langasjávar, er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna og fjölskyldna þeirra. Brimgarðar eiga rúmlega 29% hlut í Eik, um 16,5% með beinum hætti en afganginn í gegnum framvirka samninga, að mestu hjá Arion banka. Brimgarðar yrðu að öllu óbreyttu stærsti hluthafi sameinaðs félags, með um 9,6% hlut. Aftur á móti munu lífeyrissjóðir eiga um 55% hlut í sameinuðu félagi.
Gunnar Þór gagnrýnir einnig nálgun Regins á málið og segir yfirtökutilboðið reynast hluthöfum Eikar kostnaðarsamt.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.