Birna Einarsdóttir: Við drögum lærdóm af þessu

Birna Einarsdóttir hefur verið banka- stjóri Íslandsbanka í tæp 15 …
Birna Einarsdóttir hefur verið banka- stjóri Íslandsbanka í tæp 15 ár. Kristinn Magnússon

Það var mat stjórnar og stjórnenda Íslandsbanka að taka sáttatilboði Fjármálaeftirlits Seðlabankans og greiða sekt vegna annmarka í störfum bankans við framkvæmd á útboði í 22,5% eignarhlut ríkisins í bankanum sem fram fór í mars í fyrra – í stað þess að sæta stjórnvaldssekt sem að öllum líkindum yrði mun hærri og leggja af stað í ferli sem tæki í það minnsta 2-3 ár fyrir dómstólum.

Þetta staðfestir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í samtali við Morgunblaðið. Aðspurð segir hún að vissulega hafi upphæð fyrrnefndar sektar komið bankanum á óvart en nefnir að það sé í takti við þá þróun sem virðist sjást á erlendum fjármálamörkuðum. Einnig þurfi að horfa til þess að sektin taki mið af sterku tekjustreymi Íslandsbanka.

Rétt er að geta þess að ef yfirvöld, í þessu tilviki Fjármálaeftirlit Seðlabankans, telja að um refsiverða háttsemi sé að ræða – til dæmis þar sem einstaka starfsmenn gætu þurft að sæta refsingu – er ekki lagt af stað í það sáttaferli sem hér um ræðir.

Íslandsbanki hefur fallist á að greiða langhæstu sekt sem lögð …
Íslandsbanki hefur fallist á að greiða langhæstu sekt sem lögð hef­ur verið á fjár­mála­fyr­ir­tæki hér á landi. Samsett mynd

Eins og greint var frá í gærkvöldi er Íslandsbanka gert að greiða tæplega 1,2 milljarða króna í sekt. Hér er um að ræða langhæstu sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki á Íslandi. Hæsta sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki fram til þessa er tæplega 88 milljóna króna sekt sem lögð var á Arion banka sumarið 2020 á grundvelli þess að bankinn hefði ekki birt upplýsingar um hópuppsögn haustið 2019 í tæka tíð, þar sem upplýsingarnar flokkuðust sem innherjaupplýsingar. Arion banki höfðaði í kjölfarið mál gegn Fjármálaeftirliti Seðlabankans til að fá sektinni hnekkt, en það var ekki fyrr en í nú í júní á þessu ári sem niðurstaða fékkst í málið þegar Landsréttur sýknaði Seðlabankann.

Hafa gert breytingar á verklagi

Íslandsbanki gengst við því að hafa ekki starfað að öllu leyti í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum vegna framkvæmdar á fyrrnefndu útboði. Eins og mikið hefur verið fjallað um hefur bankinn sætt gagnrýni fyrir það hvernig samskiptum við þátttakendur í útboðinu var háttað auk þess sem kaup einstakra starfsmanna bankans voru gagnrýnd.

„Við höfum frá því að þetta átti sér stað gert breytingar á verklagi bankans og dregið mikinn lærdóm af þessu máli,“ segir Birna. Þar fellur undir verklag sem snýr að því hvernig upptökum í síma er háttað sem og skilgreiningu á fagfjárfestum, innri reglum um kaup starfsmanna og fleira.

„Það er rétt að viðurkenna að við höfðum ekki fylgt nægilega vel eftir reglum um upptökur í símum, sem settar höfðu verið haustið 2021 og við áttum að innleiða með öðrum hætti en við gerðum. Við höfum nú innleitt þær reglur – og um leið verklag – með öðrum hætti og það sama á við um aðra þætti sem snúa að innri reglum bankans. Við munum þó, í kjölfar þessarar niðurstöðu, láta fara aftur yfir alla þessa þætti til að tryggja að þeir séu framkvæmdir með réttum hætti.“

Íslandsbanki mun ekki taka þátt í frekara söluferli

Ríkið á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka og fyrir liggur vilji ríkisstjórnarinnar til að selja þann hlut, þó enn eigi eftir að ákveða hvenær það verður gert og með hvaða hætti. Ríkið seldi sem kunnugt er 35% hlut í opnu útboði sumarið 2021 og sem fyrr segir 22,5% hlut í lokuðu útboði í mars í fyrra. Í bæði skiptin var Íslandsbanki sjálfur meðal þátttakenda í söluferlinu.

Aðspurð segir Birna að Íslandsbanki muni ekki taka þátt í frekari sölu á bankanum.

„Það var ljóst að tímafresturinn til að standa að sölunni í mars í fyrra var knappur og það skýrir hluta af því sem fór úrskeiðis í verklagi bankans,“ segir Birna.

„Það segi ég þó ekki til að víkja mér undan ábyrgð, heldur til að benda á að það er einn af þeim lærdómum sem draga má af þessu máli. Það þarf að vanda til verka og gæta þess að verklag sé í lagi þó svo að tímafresturinn sé tæpur.“

Sem fyrr segir hefur nokkuð verið fjallað um kaup starfsmanna í fyrrnefndu útboði. Íslandsbanki hefur fram til þessa haldið því fram að innri reglum um viðskipti starfsmanna hafi verið fylgt eftir. Spurð um þetta segir Birna að innri reglur bankans hafi verið hertar. Aftur á móti hafi bankinn ekki gætt nægilega vel að því að framkvæma hagsmunamat þegar kaup starfsmanna voru heimiluð, meðal annars með tilliti til orðsporsáhættu. Því verklagi hafi nú verið breytt.

Þá má geta þess að frá því að útboðið fór fram hafa orðið mannabreytingar í ýmsum störfum hjá bankanum. Aðspurð vill Birna ekki tjá sig um það hvort að þær breytingar snúi beint að því sem miður fór í útboðinu.

Sektin vanmetin en afkomuspá hækkuð

Ljóst er að Íslandsbanki hefur stórlega vanmetið fjárhæð sektarinnar. Í tilkynningu frá bankanum í janúar sl. kom fram að bankinn hefði hafið sáttarferli við Fjármálaeftirlit Seðlabankans vegna málsins. Samhliða því gjaldfærði bankinn 300 milljónir króna vegna málsins og má leiða líkur að því að það hafi verið það sem bankinn gerði ráð fyrir að þurfa að greiða í sekt að lokum.

Samhliða tilkynningunni í gær sendi Íslandsbanki frá sér afkomuspá fyrir 2. ársfjórðung þessa árs. Þar kom fram að áætlað er að afkoma Íslandsbanka fyrir annan ársfjórðung 2023 verði á bilinu 5,8-6,5 milljarðar króna eftir skatt, þegar tillit hefur verið tekið til sáttarinnar, sem jafngildir arðsemi eigin fjár á bilinu 10,7-12,1% á ársgrundvelli.

Þá uppfærði Íslandsbanki afkomuspá sína að því er varðar arðsemi eigin fjár fyrir árið 2023. Upphafleg spá gerði ráð fyrir 10-11% arðsemi á árinu, en nú er gert ráð fyrir að arðsemin verði á bilinu 10,7-11,7%.

Mun starfa áfram sem bankastjóri

Það verður ekki hjá því komist að spyrja Birnu hvort hún telji sig njóta trausts stjórnar Íslandsbanka til að gegna starfi sínu áfram og hvort að rætt hafi verið um starfslok hennar í fyrrnefndu sáttarferli.

„Ég nýt trausts innan stjórnar bankans og mun gegna starfi mínu áfram,“ segir Birna.

„Ég hef á þeim 15 árum sem ég hef starfað sem bankastjóri innleitt ákveðna verkferla innan bankans, meðal annars þá sem snúa að áhættumenningu. Það er alveg ljóst að í þessu tilgreinda máli varð misbrestur á starfsemi bankans, en um leið lít ég svo á – og stjórnin er mér sammála – að með því að ljúka málinu með þessum hætti sé Fjármálaeftirlit Seðlabankans einnig að veita bankanum og stjórnendum hans ákveðið traust til að gera breytingar á verkferlum og koma málum þannig fyrir að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Ég og aðrir stjórnendur bankans munum standa undir því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK