Fjárhæð sektarinnar sem Íslandsbanki hefur samþykkt að greiða vegna brota á reglum við framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í bankanum í mars í fyrra, gefur til kynna að um alvarlegar brotalamir sé um að ræða.
Þetta kemur fram í tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
Í gær kom fram að Íslandsbanki hafi fallist á boð fjármálaeftirlits Seðlabankans um að greiða 1,16 ma.kr. í sátt vegna brota á reglum við framkvæmd útboðs Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra.
Fjármálaeftirlitið hóf í apríl 2022 rannsókn á mögulegum brestum í framkvæmd sölunnar af hálfu Íslandsbanka.
„Ekki er tímabært að taka efnislega afstöðu til málsins fyrr en nánari upplýsingar um brotin liggja fyrir. Ráðuneytið gerir ráð fyrir að í þeim upplýsingum komi fram með hvaða hætti farið var á svig við reglur og hvernig ábyrgð er háttað enda er mikilvægt til að undirbyggja traust almennings að tekið sé á því ef reglum fjármálamarkaðar er ekki fylgt,“ segir jafnframt í tilkynningu ráðuneytisins.
í tilkynningu Bankasýslu ríkisins sem birtist fyrir skömmu segir að stofnunin muni yfirfara sátt Íslandsbanka og fjármálaeftirlits Seðlabankans, og leggja mat á hvort tilefni sé til ráðstafana af hálfu stofnunarinnar.
Verður þetta gert annars vegar í ljósi þess samningssambands sem var á milli Bankasýslu ríkisins og fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfmiðlunar Íslandsbanka í tengslum við útboðið og hins vegar í ljósi eigandahlutverks stofnunarinnar, en hún heldur á 42,5% hlut í bankanum eftir útboði.
„Bankasýsla ríkisins hafði enga aðkomu að sáttinni og var ekki sérstaklega upplýst um framvindu sáttaumleitana.
Þar sem sáttin hefur ekki verið birt getur Bankasýsla ríkisins ekki, að svo stöddu, lagt sjálfstætt mat á þá annmarka sem kunna hafa verið á vinnu Íslandsbanka í tengslum við útboðið. Er sáttin liggur fyrir mun Bankasýsla ríkisins yfirfara hana og leggja mat á hvort tilefni sé til ráðstafana af hálfu stofnunarinnar, annars vegar í ljósi þess samningssambands sem var á milli Bankasýslu ríkisins og fyrirtækjaráðgjafar og verðbréfmiðlunar Íslandsbanka í tengslum við útboðið og hins vegar í ljósi eigandahlutverks stofnunarinnar, en hún heldur á 42,5% hlut í bankanum eftir útboði,“ segir í tilkynningu Bankasýslunnar sem birtist í dag.