Reglubundinni umræðu um Ísland er lokið í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Frá þessu greinir Seðlabanki Íslands á heimasíðu sinni.
„Miðvikudaginn 14. þessa mánaðar fór fram árleg umræða í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um stöðu og horfur í efnahagsmálum á Íslandi samkvæmt fjórðu grein stofnsáttmála um sjóðinn (e. Article IV Consultation). Þá var einnig til umræðu heildstæð úttekt sjóðsins á íslenska fjármálakerfinu (e. Financial Sector Assessment Program (FSAP)). Sú úttekt er valkvæð í tilviki Íslands en skyldubundin fyrir lönd með kerfislega mikilvæg fjármálakerfi á alþjóðavísu,“ ritar bankinn á síðu sína.
Segir þar enn fremur af því að sendinefnd AGS hafi átt fundi með íslenskum stjórnvöldum og ýmsum hagaðilum í vor vegna fjórðu greinar stofnsáttmálans. Eins hafi FSAP-sendinefnd sjóðsins átt fundi með stjórnvöldum og hagaðilum undir lok árs í fyrra og aftur í mars í ár vegna úttektar á fjármálakerfinu.
„Úttektin stóð yfir meginhluta vetrarins og fól m.a. í sér ýmsar gagnabeiðnir og svörun spurningalista. Tilgangur úttektarinnar var að kanna viðnámsþrótt fjármálakerfisins, gæði reglusetningar og eftirlits og burði landsins til að takast á við fjármálaáföll. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skilaði 150 ábendingum í tæknilegum skýrslum sínum sem ýmist er beint til Seðlabankans, ráðuneyta og/eða hvort tveggja,“ segir að lokum á síðu bankans.