Mikil vonbrigði að svona vinnubrögð skuli viðgangast

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Golli

„Það hefur mikil vinna farið í að byggja upp traust á fjármálakerfið síðasta áratug og margir unnið gríðarlega gott starf í því. Þannig að það eru ekki bara vonbrigði að svona vinnubrögð skuli viðgangast í einu stærsta fjármálafyrirtæki landsins heldur jaðrar við hneyksli.“

Þetta segir Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, í samtali við Morgunblaðið innt eftir viðbrögðum við skýrslu Fjármálaeftirlits Seðlabankans um starfshætti Íslandsbanka.

Hildur segir að til viðbótar við „óásættanleg lögbrot af hálfu bankans“ eins og hún orðar það virðist sem svo að þar hafi verið viðhöfð handarbaksvinnubrögð sem ekki eigi að þekkjast í nútímasamfélagi.

„Það skiptir máli að hlutirnir séu gerðir vel og að við fylgjum þeim leikreglum sem við höfum sett okkur. Ef fólk sýnir þeim virðingarleysi þá rýrir það trú okkar á ekki bara fjármálakerfinu heldur öllu gangverki samfélagsins sem er grafalvarlegt,“ segir Hildur. Þá segir hún að mikilvægt sé að draga lærdóm af málinu og að vinnubrögð Íslandsbanka verði tekin til gagngerrar endurskoðunar.

Hvorki ráðherra né Bankasýsla hafi brotið lög

Spurð um það hvort að hún telji þörf á því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, sem áður hefur fjallað um sölu á hlut ríkisins í bankanum, komi saman segir Hildur að hún telji það langsótt á þessu augnabliki.

„Brot Íslandsbanka snúast sem slík ekki um neina stjórnsýslu, sem er það sem nefndin hefur eftirlit með, heldur því hvernig aðili á markaði fylgdi eftir gildandi lögum um starfsemi sína og er undir Fjármálaeftirliti Seðlabankans,“ segir hún.

Hvað gagnrýni stjórnarandstöðunnar varðar segir Hildur að frá upphafi hafi ríkt mikil upplýsingaóreiða um málið.

„Það gefur þó ekki stjórnarandstöðunni það leyfi að ýja að því eins og ég sé fullyrt nú um að það hafi verið orðum aukið til þessa að engin lög hafi verið brotin. Rannsókn og umfjöllun málsins til þessa af hálfu þingsins hefur eingöngu verið um þátt ráðherra og Bankasýslunnar og þar hefur niðurstaðan ekki verið sú að lög hafi verið brotin,“ ítrekar Hildur.

„Það er ekki heiðarlegt að ýja að öðru nú þegar háttsemi Íslandsbanka kemur í ljós. Þvert á móti hefur alltaf verið haldið til haga að fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur haft til skoðunar háttsemi Íslandsbanka sem fjármálafyrirtæki tengt sölunni sem stjórnvöld hafa ekkert haft með að gera.“

Telur ekki þörf á rannsóknarnefnd

Spurð um það hvort hún telji þörf á því að Alþingi skipi sérstaka rannsóknarnefnd vegna málsins segir Hildur að grunnforsenda fyrir aðkomu rannsóknarnefndar sé sú að öðru eftirliti sé ekki til að dreifa.

„Ríkisendurskoðandi hefur skilað sínu eftirliti um háttsemi stjórnvalda þar sem ýmsar aðfinnslur voru gerðar án þess að lög hafi talin vera brotin. Ítarleg skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans nú sýnir svo að eftirliti hefur verið vel sinnt með afgerandi niðurstöðu um brot og óásættanleg vinnubrögð bankans. Það liggur þá skýrt fyrir og ég get ekki séð þörf fyrir frekari rannsókn þar til annað kemur í ljós,“ segir Hildur.

„Skýrslan sýnir að þær reglur sem við höfum verið að undirbyggja í fjármálakerfinu eru að sýna sig með auknu eftirliti, eftirfylgni og viðurlögum svo að svona vinnubrögð endurtaki sig vonandi ekki. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það geti ríkt traust um fjármálakerfið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK