Boðað hefur verið til fundar í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis um brot Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum á morgun og verður fundurinn opinn almenningi á meðan húsrúm leyfir.
Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, eru meðal fundargesta.
Aðrir gestir fundarins eru Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands, Gunnar Þór Pétursson, nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd Seðlabanka Íslands og Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins.
Efnhags- og viðskiptanefnd Alþingis stendur fyrir fundinum og fer hann fram í húsnæði nefnda- og greiningarsviðs Alþingis, Austurstræti 8-10, á morgun klukkan 13.
Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis.