Atli Steinn Guðmundsson
„Stjórn Neytendasamtakanna fól framkvæmdastjóra að færa viðskiptin til annars banka,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, í samtali við mbl.is um niðurstöðu stjórnarfundar samtakanna sem rétt í þessu var að ljúka. Er ákvörðunin tekin í kjölfar sáttar Íslandsbanka við Seðlabanka Íslands um greiðslu hárrar sektar í kjölfar rannsóknar Fjármálaeftirlitsins vegna brota Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum.
„Við munum væntanlega ekki höggva stórt skarð í viðskiptamannahóp bankans en svona siðferðislega, og táknrænt aðallega, tökum við þessa ákvörðun. Nú hefur framkvæmdastjóra verið falið að skipta um viðskiptabanka vegna þess sem fram hefur komið í fjölmiðlum. Við viljum ganga á undan með góðu fordæmi, við hvetjum jú oft félagsmenn til að kjósa með veskinu,“ heldur Breki áfram.
Segir hann Neytendasamtökin með ákvörðuninni sýna afstöðu sína til þeirra mála sem upp hafa komið í tengslum við stjórnendur bankans og „kúltúrinn í Íslandsbanka“.