Sektin lendi á stjórnendum en ekki neytendum

„Ef stjórnendur eru brotlegir ættu þessar sektir miklu frekar að …
„Ef stjórnendur eru brotlegir ættu þessar sektir miklu frekar að vera greiddar af launum stjórnenda heldur en hækkunum á gjöldum til neytenda,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Samsett mynd

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur áhyggjur af því að sú gríðarháa sekt sem Íslandsbanki féllst á að greiða eftir samkomulag um sátt við Seðlabanka Íslands í kjölfar athugunar Fjármálaeftirlits vegna brota bankans við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum sjálfum, lendi að endingu á neytendum.

Fyrirtæki taka ekki ákvarðanir

„Við höfum oft bent á það að svona sektargreiðslur eigi tilhneigingu til þess að lenda á herðum neytenda í gegnum hækkanir á gjöldum.“

Breki segir að það séu ekki fyrirtækin sjálf sem taka ákvarðanir sem verða til þess að þau sé sektuð heldur stjórnendur þeirra.

„Ef stjórnendur eru brotlegir ættu þessar sektir miklu frekar að vera greiddar af launum stjórnenda heldur en hækkunum á gjöldum til neytenda.“ Segir hann að það fyrirkomulag mun sanngjarnara vegna þess að þá borgaði sá sem „braut brúsann“.

Sæta fjárhagslegri ábyrgð

„Þeir sem gerast brotlegir eru yfirleitt þeir sem borga brúsann, almenna reglan er sú í samfélaginu. Akir þú of hratt þá borgar þú sektina en ekki framleiðandi bílsins sem gerir þér kleift að aka hratt.“

Breki segir að meiri fælingarmáttur sé í því fólginn ef hinn raunverulegi brotamaður borgi brúsann. Það sé alltaf sagt að það sé svo gífurleg ábyrgð að stjórna svona fyrirtækjum að það krefjist hárra launa. Þeirri ábyrgð gæti þá fylgt að stjórnendur þyrftu að sæta fjárhagslegri ábyrgð fari þeir á svig við lög.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK