Svona skýrsla ekki skrifuð fyrir hrun

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áður en hún fór á fund ráðherranefndar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áður en hún fór á fund ráðherranefndar um efnahagsmál í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að skýrsla fjármálaeftirlits Seðlabankans (FME) sýni að eftirlit á fjármálamarkaði hafi eflst. Hún segir að svona skýrsla hefði ekki birst með sama hætti fyrir efnahagshrunið árið 2008. 

Skýrsla FME um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka var eina umræðuefni á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál í morgun en þar gerðu fulltrúar Seðlabankans betur grein fyrir henni. 

Katrín segir í samtali við mbl.is að afstaða hennar gagnvart þessari skýrslu hafi ekki breyst en hún sagði í samtali við fjölmiðla í gær að hún væri áfellisdómur yfir stjórn og stjórnendum Íslandsbanka.

Blasir við að bankinn beri ábyrgð

Spurð hvort hún teldi að stjórn bankans væri stætt eftir þetta segir Katrín að hún teldi þau þurfa að axla ábyrgð. „Stjórnendur og stjórn bankans þurfa að standa skil á gjörðum sínum gagnvart almenningi í þessu máli. Ég hef sagt að það blasir við að þau þurfa að axla ábyrgð og ég tel það blasa við hvað það merkir,“ segir Katrín. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í samtali við mbl.is að hann teldi sig ekki bera pólitíska ábyrgð á málinu og hygðist ekki segja af sér vegna málsins. 

Spurð hvort hún teldi að Bjarni ætti að bera pólitíska ábyrgð á málinu sagði Katrín: 

„Ég tel að í kjölfar allra þessa atburða hafi Bjarni sýnt eindreginn vilja til að upplýsa alla þætti þessa máls. Það gerði hann með því að óska sjálfur eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á undirbúningi málsins. Mér fannst sú skýrsla mjög góð, eins og þessi skýrsla, og ég tel að hún sýni að þetta var undirbúið eftir bestu vitund stjórnvalda,“ segir Katrín.

Katrín segir afstöðu sína gagnvart skýrslunni ekki hafa breyst eftir …
Katrín segir afstöðu sína gagnvart skýrslunni ekki hafa breyst eftir fundinn. Bankinn beri ábyrgð í málinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýnir að eftirlitið virkar 

Kemur þetta sér ekki illa fyrir ásýnd íslenska fjármálakerfisins út á við? Getur þetta haft áhrif á lánakjör bankanna?

„Ég er ekki viss um að þessi skýrsla, sem við fengum í gær, hefði birst með sama hætti fyrir hrun. Mér finnst þessi skýrsla vera ákveðinn vitnisburður um að lögum og reglum hefur verið breytt. Regluverk fjármálamarkaðarins er allt annað en það var þá og eftirlitsstofnanirnar miklu betur í stakk búnar að sinna sínu hlutverki. Þannig að einhverju leyti finnst mér þetta sýna að eftirlitið virkar,“ segir Katrín. 

Hún segir að enn sé stefnt að því að selja hlut ríkisins í bankanum. 

„Sú afstaða okkar stendur óhögguð að frekari hlutur ríkisins í bankanum verður ekki seldur fyrr en þetta mál er full upplýst og fyrirkomulaginu hefur verið breytt. Það þýðir auðvitað að það þarf að laga ríkisfjármálin að þeim veruleika en við munum ekki hverfa frá því að selja hlut ríkisins í bankanum,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka