„Ég sagði hérna fyrir framan stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd í fyrra að þetta væri eitt farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar og ég stend við það.“
Þetta sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á fundi efnahags- og viðskiptanefnar Alþingis sem nú stendur yfir. Fjallað er um brot Íslandsbanka við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum.
„Þetta var útboð sem var framkvæmt á mjög stuttum tíma. Þetta var þriðja stærsta hlutafjárútboð Íslandssögunnar, framkvæmt á styttri tíma heldur en nokkur önnur útboð hafa verið gerð.
Það var liðinn tæpur mánuður frá innrás Rússlands í Úkraínu, markaðsaðstæður voru erfiðar en við nýttum okkur glugga sem opnaðist og erlendir fréttamiðlar sögðu einmitt að við hefðum opnað evrópska hlutabréfamarkaði,“ sagði Jón Gunnar.
Hann sagði útboðið einnig vera eitt það farsælasta sem átti sér stað í Evrópu og nefndi ýmsar tölur því til stuðnings.
Nefndi hann meðal annars útboð í bönkum hjá írska ríkinu, breska ríkinu og norrænum ríkjum.
„Öll gögn styðja þá fullyrðingu mína að þetta var ekki bara farsælasta hlutafjárútboð Íslandssögunnar heldur væntanlega eitt af farsælustu hlutafjárútboðum sem áttu sér stað í Evrópu síðustu mánuði.“