Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, stendur staðfastlega á því að þrátt fyrir skýrslu fjármálaeftirlits Seðlabankans (FME) hafi hlutafjárútboð í Íslandsbanka á síðasta ári verið farsælasta útboð Íslandssögunnar.
Jón Gunnar segir í samtali við mbl.is eftir fund í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að öll gögn sýni að bankasýslan hafi verið skýr í sínum fyrirætlunum og fyrirmælum.
Á fundinum lýsti Jón Gunnar því hvernig fjárhagsleg niðurstaða útboðsins sýndi svart á hvítu að þetta væri farsælasta útboð Íslandssögunnar.
Geturðu í alvöru sagt þetta í ljósi skýrslu FME?
„Já. Athugun fjármálaeftirlitsins beinist ekki gegn okkur. Ef þú lest skýrsluna þá kemur skýrlega í ljós að fyrirætlanir okkar og fyrirmæli til söluráðgjöf voru í fullkomnu samræmi 22. mars 2022, eins og kom fram í minnisblaði okkar 20. janúar til ráðherra, og það kom líka fram í kynningu fyrir þingnefndir 20. febrúar. Það er afskaplega skýrt af lestri skýrslu FME að við höfum alltaf verið skýrir í okkar fyrirætlunum og fyrirmælum,“ segir Jón Gunnar.
Á fundinum kom fram að bankasýslan hefði ekki hingað til farið fram á kjör á hluthafafundi og að sá fundur myndi líklega fara fram í lok júlí. Jón Gunnar sagði að umræða um kjör hafi ekki komið til umræðu nema bara síðastliðinn sólarhring og því væri ekki komin nein niðurstaða.
Hvað munið þið leggja áherslu á á þessum fundi?
„Við birtum tilkynningu á mánudag þess efnis að við óskuðum eftir að á fundinum myndu stjórn og stjórnendur skýra aðkomu sína og bankans og framkvæmd bankans á þessum hluta sem úttekt FME nær til.“
Spurður hvort hann teldi að stjórnarmönnum, sem sátu þegar útboðið var, væri stætt sagðist Jón Gunnar ekki hafa lagt mat sitt á það.
Bankastjóri Íslandsbanka sagði upp störfum í nótt og er búið að ráða í stöðuna. Spurður hvort hann teldi eðlilegt að bankinn færi í slíka ráðningu, sem ekki er tímabundin, á þessum tímapunkti sagði Jón Gunnar:
„Stjórnin er löglega kjörin og hún er starfandi og það er hennar hlutverk að ráða bankastjóra. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að ráðningin hafi farið fram samkvæmt lögum.“
Í skýrslu FME kemur fram að Íslandsbanki hafi lagt fram villandi gögn við framkvæmd útboðsins.
Áttaðir þú þig á því, á einhverjum tímapunkti, að gögnin væru ekki rétt?
„Þetta er í fyrsta skipti sem við fáum upplýsingar um að þessi gögn hafi ekki verið rétt.“