Tólf mánaða verðbólga mælist nú 8,9% og minnkar frá maímánuði þegar verðbólgan mældist 9,5%.
Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar, en í dag birti stofnunin vísitölu neysluverðs fyrir júní.
Vísitala neysluverðs stendur nú í 595,6 stigum og hækkar um 0,85% frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 491,1 stig og hækkar um 0,68% frá maí 2023.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hækkaði um 1,6% sem hafði 0,31% áhrif á vísitöluna. Verð á þjónustu hótela og veitingastaða hækkaði um 2,7% sem hafði 0,14% áhrif á vísitöluna.