Kvika banki hefur ákveðið að slíta viðræðum um samruna við Íslandsbanka. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar frá Kviku. Stjórn Kviku vísar til þess að atburðir síðustu daga og fyrirhugaður hluthafafundur hafi valdið því að ekki séu lengur forsendur fyrir viðræðum.
Greint var frá því í byrjun febrúar að Íslandsbanka hefði borist erindi frá stjórn Kviku um mögulegan samruna. Með samrunanum hefði orðið til stærsti banki landsins, en sameiginlegt markaðsvirði bankanna tveggja í febrúar var rúmlega 330 milljarðar.
Í tilkynningunni kemur fram að félögin hafi undanfarið, ásamt erlendum og innlendum ráðgjöfum sínum, metið mögulega samlegð af samruna og stöðu sameinaðs félags á markaði.
„Í kjölfar þeirrar vinnu er það mat stjórnar Kviku að verulegur ávinningur geti falist í samruna. Viðræðurnar hafa verið góðar en hafa hins vegar ekki enn leitt til sameiginlegrar niðurstöðu um skiptahlutföll,” segir í tilkynningunni.
Sátt Íslandsbanka og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands og fyrirhugaður hluthafafundur hjá Íslandsbanka virðist hins vegar hafa haft áhrif á þetta. „Í ljósi atburða síðustu daga og þess að fyrirséð er að boðað verði til hluthafafundar hjá Íslandsbanka og mögulegs stjórnarkjörs, telur stjórn Kviku ekki forsendur til þess að halda samningaviðræðum áfram. Þó er ljóst að ávinningur af samruna félaganna gæti orðið verulegur og hefur stjórn Kviku lýst yfir vilja sínum til þess að hefja viðræður að nýju ef forsendur skapast,“ segir jafnframt í tilkynningunni.