Stjórn Íslandsbanka biðji þjóðina afsökunar

Stjórn VR hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar sáttar …
Stjórn VR hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar sáttar Íslandsbanka. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn VR telur yfirstandandi einkavæðingu Íslandsbanka vera áfellisdóm yfir öllum sem að henni komu og skorar á stjórnvöld að falla frá frekari áformum um sölu á eignarhlut í bankanum.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu stjórnar VR. Íslandsbanki hefur fallist á að greiða 1,2 milljarð króna í sekt vegna brota við sölumeðferð eignarhluta ríkisins í bankanum.

„Skeytingarleysi stjórnenda Íslandsbanka gagnvart lögum og reglum gefur innsýn í menningu íslenska fjármálakerfisins, sem virðist fáa lærdóma hafa dregið af hruninu,“ segir í yfirlýsingunni.

„Dugar ekki að fórna bankastjóranum

Yfirlýsingar fráfarandi bankastjóra og stjórnarformanns gefa litla von um að breytingar séu í vændum á vinnubrögðum bankans, þvert á móti virðast stjórnendur telja að gagnrýni á þeirra störf sé óvægin og ósanngjörn.“

Stjórnin telur mikilvægt að gera breytingar á bankakerfinu. Bankar eigi að þjóna samfélaginu og vera bakhjarl fyrir heimili, einstaklinga og fyrirtæki.

„Brot Íslandsbanka við sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í bankanum eru með öllu óásættanleg. Orð eru ekki nóg og það dugar ekki að fórna bankastjóranum og halda svo áfram á sömu braut.

Stjórn VR mótmælir því að einstaklingar geti gerst brotlegir við lög og reglur en þurfi ekki að bera af því kostnaðinn heldur séu himinháir reikningar sendir í formi sekta á fyrirtæki, sem neytendur greiða á endanum.“

Skora á stjórnvöld að byggja upp Landsbankann

Í yfirlýsingunni er skorað á stjórnvöld að beita eignarhaldi sínu í Landsbankanum til að byggja upp banka sem þjóni fólkinu í landinu, bjóði ásættanleg lánakjör og skjól frá „spillingu fjármálakerfisins og hárri arðsemiskröfu“.

Þá er varað við því að VR muni taka til ítarlegrar skoðunar að slíta viðskiptum við Íslandsbanka, verði haldið áfram á sömu braut.

„Við köllum eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð ber á lögbrotum axli þá ábyrgð og biðji þjóðina afsökunar á háttsemi sinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK