First Water hf., sem áður hét Landeldi hf. og vinnur að uppbyggingu sjálfbærs laxeldis á landi í Þorlákshöfn, hefur lokið hlutafjáraukningu að andvirði 12,3 milljarða króna. Með hlutafjáraukningunni hyggst fyrirtækið fjármagna uppbyggingu og er búist við að framleiðslugeta verði 50 þúsund tonn af laxi á ári.
Framleiðslugeta í fyrsta áfanga verður um 8 þúsund tonn af laxi á ári en áætlanir félagsins miða við að heildarframleiðsla verði að lokum um 50 þúsund tonn og að uppbyggingu verði lokið árið 2028.
First Water starfrækir seiðaeldisstöð við Hveragerði og áframeldisstöð við Þorlákshöfn. Alls eru nú um 1,8 milljónir laxa í seiða- og áframeldisstöðvum First Water. Fyrsta slátrun fór fram í maí 2023 og næsta uppskera er áætluð í ágúst 2023.
Hluthafar First Water eru um 115 talsins eftir hlutafjáraukninguna. Meðal hluthafa eru frumkvöðlar, stjórnendur og starfsmenn, auk einka- og stofnanafjárfesta. Stærsti hluthafi First Water er fjárfestingafélagið Stoðir hf.
Áform eru um að skrá First Water á hlutabréfamarkað 2025 og sækja samhliða skráningu aukið fjármagn til áframhaldandi uppbyggingar.