Stjórn Íslandsbanka hefur boðað til hluthafafundar í bankanum föstudaginn 28. júlí. Kosið verður í stjórn bankans, varastjórn og formann stjórnar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.
Á fundinum verður einnig fjallað um sátt Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) og viðbrögð Íslandsbanka við henni.
Öllum hluthöfum er heimilt að sækja hluthafafund, taka þar til máls og neyta atkvæðisréttar síns. Rétt til setu á hluthafafundi hafa, auk hluthafa og umboðsmanna þeirra, endurskoðandi, stjórnarmenn og bankastjóri.
Þá er fulltrúum FME heimilt að sitja fundinn, en slíkir fulltrúar hafa hvorki tillögurétt né atkvæðisrétt á fundinum.
Fundurinn verður haldinn á Grand hótel Reykjavík föstudaginn 28. júlí klukkan ellefu.
Skýrsla FME var gerð opinber á mánudag en í henni var varpað ljósi á hin ýmsu brot Íslandsbanka við útboð á hlut ríkisins í bankanum. Bankastjóri Íslandsbanka, Birna Einarsdóttir, sagði upp störfum í vikunni og Jón Guðni Ómarsson tók við stöðu bankastjóra.
Í gær var greint frá því að Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta hjá banknum, væri hættur hjá bankanum. Kristín Hrönn Guðmundsdóttir hefur verið ráðin í stað hans.