Allir þeir fimm stjórnendur auk regluvarðar sem komu að sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hafa látið af störfum. Þar af eru þrír stjórnendur sem látið hafa af störfum eftir að sátt var gerð við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands upp á greiðslu 1.160 milljónir króna.
Birna Einarsdóttir bankastjóri hætti á aðfaranótt miðvikudags.
Í gærkvöldi bárust fregnir af því að Atli Rafn Björnsson hefði hætt í starfi sem yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar bankans.
Á laugardag bárust fregnir af því að Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta, hefði hætt en sviðið hafði yfirumsjón með þeim þremur sviðum bankans sem komu að hlutabréfaútboðinu. Það voru eignastýring, verðbréfamiðlun og fyrirtækjaráðgjöf bankans.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson var forstöðumaður eignastýringar bankans en hann hefur ráðið sig til Fossa.
Þá hafði Ingvar Arnarsson þegar látið af starfi sínu sem forstöðumaður verðbréfamiðlunar en hann sinnti starfinu frá árinu 2018.
Eins hætti Rut Gunnarsdóttir sem regluvörður hjá bankanum í mars síðastliðnum eftir að hafa starfað hjá bankanum frá árinu 2015.