Persónuvernd hefur sektað Creditinfo Lánstraust hf. vegna skráninga lántakenda smálána á vanskilaskrá. Fjárhæð sektarinnar nemur 37.859.900 kr. og er langhæsta sekt sem Persónuvernd hefur gert nokkru fyrirtæki að greiða.
Sektin nemur 2,5% af veltu fyrirtækisins árið 2021, en hámarkssektarheimild Persónuverndar er 4%.
Hinn 27. júní 2023 lauk Persónuvernd málum vegna skráningar upplýsinga frá eCommerce 2020 ApS um vanskil á svonefndum smálánum hjá Creditinfo.
Neytendasamtökin höfðu kvartað árið 2020 með vísan til lántökukostnaðar og reyndi á hvort í ljósi úrlausna þar til bærra aðila um ólögmæti hans hefði skráningin brotið gegn lögmætisskilyrði persónuverndarlöggjafarinnar.
Við athugun Persónuverndar á lánaskilmálum eCommerce 2020 ApS kom í ljós að þar til seint í maí 2019 hafði vantað ákvæði í lánaskilmála um að við nánar tilgreind vanskil kæmi til vanskilaskráningar.
Talið var að skráningin hefði einkum getað helgast af slíku ákvæði í samræmi við skilyrði í starfsleyfi Creditinfo. Þá höfðu verið skráðar kröfur að höfuðstól undir lágmarksfjárhæð samkvæmt skilmálum leyfisins.
Við ákvörðun um fjárhæð sektarinnar var litið til sérlega íþyngjandi eðlis vinnslunnar, meðal annars í tengslum við möguleika hinna skráðu á lánafyrirgreiðslu vegna íbúðakaupa og ófyrirséðra útgjalda.
Að auki var litið til fjölda skráðra, þess að vinnslan tengdist kjarnastarfsemi stofunnar, að starfsemi hennar var ætlað að skila hagnaði og tafar á eyðingu skráninga eftir að misbrestur á skráningarskilyrðum kom í ljós.
Persónuvernd byggði á því að Creditinfo bæri að kanna hvort kröfur, sem henni væru sendar til skráningar, fullnægðu skráningarskilyrðum. Creditinfo hefði ekki farið nægilega að þeirri skyldu.
Jafnframt voru sektir lagðar á eCommerce 2020 ApS og fyrrum innheimtuaðila þess félags, A.I.C. ehf. (áður Almenna innheimtu ehf.), fyrir sendingu krafnanna til skráningar þrátt fyrir skort á umræddu ákvæði í lánaskilmálum.
Sekt eCommerce 2020 ApS nam 7.500.000 krónum og A.I.C. ehf. 3.500.000 krónum.