Ríkisendurskoðun hefur hafið eftirfylgni með skýrslu embættisins um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars í fyrra. Er þetta í fyrsta sinn sem stofnunin gerir slíkt.
Undanfarið ár hefur Ríkisendurskoðun kynnt þá stefnumörkun fyrir Alþingi að ráðist verði í eftirfylgni með skýrslum embættisins innan fárra mánaða frá birtingu þeirra. Felur það í sér að spyrjast fyrir um stöðu úrbóta hjá þeim sem ábendingum hefur verið beint til.
Almennt er ekki gert ráð fyrir að eftirfylgnin leiði til frekari skýrslugerðar.
„Hefur Ríkisendurskoðun farið af stað með fyrstu eftirfylgnina af þessu tagi en það er eftirfylgni með skýrslu embættisins um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka 22. mars 2022,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni.
Á vef Ríkisendurskoðunar segir að embættið geti ekki dregið aðra ályktun af málflutningi fulltrúa Bankasýslu ríkisins á fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis en að stofnunin hafi fyrir sitt leyti engan lærdóm dregið af skýrslu Ríkisendurskoðunar.
„[...] ekki standi til af hennar hálfu að axla neina þá ábyrgð sem henni ber sem framkvæmdaraðila útboðsins og fjallað er um í skýrslunni.“
Því hefur Ríkisendurskoðun óskað eftir ítarlegum upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um stöðu mála og til hvaða ráðstafana ráðuneytið hafi gripið til að styrkja eftirfylgni með eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.