Fyrrverandi stjóri Audi áfrýjar í hneykslismáli

Rupert Stadler hefur ákveðið að áfrýja.
Rupert Stadler hefur ákveðið að áfrýja. AFP

Fyrrverandi forstjóri þýska bílaframleiðandanda Audi hefur áfrýjað dómi sem hann hlaut í viðamiklu útblásturshneykslismáli í liðinni viku. 

Rupert Stadler er æðsti fyrrverandi yfirmaður sem var sakfelldur í málinu, en hann hlaut í síðustu viku eins árs og níu mánaða skilorðsbundinn dóm og gert að greiða 1,1 milljón evra sekt, en upphæðin samsvarar um 164 milljónir kr. 

Hann komst hjá því að þurfa að sitja á bak við lás og slá með samkomulagi við ákæruvaldið þar sem hann viðurkenndi svik sem rekja mætti til vanrækslu. 

Talsmaður héraðsdómsins í München í Þýskalandi segir í yfirlýsingu að Stadler, sem er sextugur að aldri, hafi nú ákveðið að áfrýja dóminum. Ekki fylgir sögunni á hvaða grundvelli það sé gert.

Fámennur hópur lágt settra starfsmanna

Þýski bílaframleiðandinn Volkswagen Group, sem á dótturfyrirtækin Porsche, Audi, Skoda og Seat, lenti í gríðarlegum vandræðum eftir að hafa viðurkennt í september árið 2015 að fyrirtækið hefði sett upp sérstakan hugbúnað til að svindla á útblæstri í 11 milljón dísilbifreiða á heimsvísu. Við eftirlit á rannsóknarstofum sýndi hugbúnaðurinn fram á mun minni útblástur mengandi efna en þegar bílarnir voru svo komnir í umferðina. 

Réttað var í máli Stadler árið 2020 og í upphafi neitaði hann sök. Í maí ákvað hann svo að gangast að samkomulagi sem fyrr segir. 

Hann viðurkenndi að hann hefði látið það kyrrt liggja að upplýsa viðskiptafélaga að bílar með umræddan hugbúnað væru enn í umferð þrátt fyrir að búið væri að ljóstra upp um hneykslið. 

Talsmenn Volkswagen héldu því ávallt fram að fámennur hópur lágt settra starfsmanna bæri ábyrgð á svindlinu. Það hefði verið gert án vitundar yfirmanna fyrirtækisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka