Eitt stærsta tæknifyrirtæki heims til Íslands

Gagnaver Borealis Data Center á Blönduósi.
Gagnaver Borealis Data Center á Blönduósi. mbl.is/Jón Sigurðsson

Borealis Data Center (BDC), sem á og rekur þrjú gagnaver á Íslandi, hefur gert samning við IBM Cloud um að hýsa hluta skýjaþjónustu IBM á Íslandi. Það gerir viðskiptavinum fyrirtækjanna kleift að bjóða viðskiptavinum sínum aðgang að grænni skýjaþjónustu hér á landi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Borealis Data Center.

Mikil gagnanotkun erlendis leiðir til töluverðrar losun koltvísýrings þar sem raforka er unnin með brennslu jarðefnaeldsneytis. Vaxandi þörf fyrir gagnavinnslu og -geymslu getur því haft áhrif á loftslag jarðar. Hefur því IBM Cloud leitað í græna raforku hér á landi. 

Hvar er best að geyma gögn ef eitthvað skyldi gerast?

„Þetta eru eitt af stærstu upplýsingatæknifyrirtækjum í heimi. Þeir eru að vinna með miklu fleiri gagnaver sem eru staðbundin í kerfinu hjá þeim,“ segir Halldór Már Sæmundsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs hjá BDC, í samtali við mbl.is.

Hann segir þetta gera íslenskum og erlendum aðilum kleift að stýra því að gögnin þeirra séu vistuð á Íslandi.

„Regluverk getur lagt þær kröfur á ýmsa aðila að hafa gögnin sín á Íslandi. Sem dæmi er hægt að nefna opinberar stofnanir og sveitarfélög. Svo er það öryggisþátturinn. Það getur skipt máli hvar þú geymir afritin þín,“ segir hann.

Hann segir einnig að öryggi hér á landi geti skipt sköpum fyrir stóra viðskiptavini sem leita að fýsilegum stað til að geyma gögnin sín.

„Það er mikil umræða í Evrópu núna um afritun gagna út frá áhættu svæðum. Stríðsástand í Evrópu gerir það að verkum að menn hugsa hvar sé best að geyma gögnin sín ef eitthvað skyldi gerast.“

Umhverfisvæn skýjaþjónusta

Markmiðið með samningnum er að finna sjálfbæra leið fyrir alþjóðlegt fyrirtæki sem vill lækka kolefnisspor sitt með því að veita umhverfisvæna skýjaþjónustu.

„Aukin vitund um alvarleika loftslagsvandans og kröfur eftirlitsaðila um aðgerðir í þessum málaflokki þýðir að mörg fyrirtæki eiga erfitt með að ná jafnvægi á milli stafrænnar framþróunar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda,“ segir í tilkynningunni.

Hluti samstarfsins er að íslenskum fyrirtækjum og stofnunum verður jafnframt boðið upp á að geyma og vinna gögn sín í skýjaþjónustu hér á landi. Að því sem fram kemur í tilkynningunni mun þetta gera aðilum sem vinna með viðkvæm gögn kleift að tryggja að gögnin séu ávallt hýst á Íslandi. 

„Við erum langt á undan. Grænt Ísland og græn orka, hagstætt veðurfar, plús öryggi og hagkvæmni skiptir máli fyrir erlenda aðila og við erum einfaldlega að fara selja þetta í samstarfi við IBM og byrjum í allri Evrópu,“ segir Halldór.

Ráðstefna í ágúst

„Aðstæður á Íslandi eru sérstaklega hentugar fyrir örugga og sjálfbæra gagnaversþjónustu, þökk sé meðal annars endurnýjanlegum orkugjöfum og stöðugu svölu loftslagi. Með fjárfestingu stjórnvalda í bættum gagnatengingum til Íslands höfum við aukin tækifæri til að bjóða upp á fjölbreyttari tegundir gagnaversþjónustu,“ er haft eftir Birni Brynjúlfssyni, forstjóra BDC, í tilkynningunni. 

Björn ítrekar jafnframt að fyrirtækið sé stolt af því að bjóða upp á IBM Cloud á Íslandi. BDC var stofnað árið 2014 og rekur gagnaver á Blönduósi, Reykjanesi og í Reykjavík.

Í tilefni af samstarfinu mun ráðstefna vera haldin í Reykjavík þann 31. ágúst fyrir erlend fyrirtæki sem hafa lýst yfir áhuga sínum á þjónustu IBM Cloud á Íslandi. Innlendum einstaklingum sem eru áhugasamir um að fræðast um aukna sjálfbærni gagnavinnslu verður einnig boðið á ráðstefnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK