Íslandsbanki er með tryggingar

Íslandsbanki hefur keypt stjórnendatryggingar til þess að mæta mögulegu tjóni sem forsvarsmenn bankans kunna að valda. Enn liggur ekki fyrir hvort þær tryggingar nái yfir 1,2 milljarða króna sekt sem bankinn hefur greitt í ríkissjóð vegna lögbrota sem hann hefur gengist við. Þetta staðfestir Jón Guðni Ómarsson, nýráðinn bankastjóri í viðtali í nýjasta þætti Dagmála.

Eru stjórnendatryggingar til staðar hjá bankanum?

„Já það eru einhverjar slíkar tryggingar til staðar. Við erum reyndar ekki byrjuð að skoða þær en það er eitthvað sem er sjálfsagt að skoða í framhaldinu.“

Veistu hverjar tryggingafjárhæðir eru í því sambandi?

„Nei, ekki þannig að ég muni það. Ég þyrfti að skoða það betur.“

Veistu með þessa samninga hvort þeir séu bundnir því skilyrði að þeir beinist gegn þriðja aðila eða hvort tjónið geti beinst gegn fyrirtækinu sjálfu sem trygginguna tekur?

„Nei, aftur þyrfti ég að kynna mér það betur.“

Þannig bregst Jón Guðni Ómarsson, nýr bankastjóri Íslandsbanka, við þegar hann er inntur eftir því hvort bankinn eigi einhverja möguleika á að fá bætt það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna yfirsjóna starfsmanna hans. Beint tjón bankans er 1.160 milljónir króna sem leiðir af sektargreiðslu þeirri sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur lagt á hann vegna þeirra lögbrota sem áttu sér stað í tengslum við útboð á 22,5% hlut í Íslandsbanka í mars í fyrra. Er þá ótalið það óbeina og illmælanlega tjón sem tengist orðspori bankans sem laskast hefur vegna málsins.

Í viðtalinu segir Jón Guðni mikið verk fyrir höndum að endurheimta traust á bankanum. Það muni m.a. byggjast á því að færa í betri skorður þá vankanta sem birtust í fyrrnefndri sátt við Seðlabankann. Þar þurfi að vanda til verka og hyggst hann m.a. óska eftir samtali við eftirlitsstofnunina um það með hvaða hætti best megi innleiða betri starfshætti.

Hann segir ekkert liggja fyrir um mögulegt framhald viðræðna milli Íslandsbanka og Kviku um mögulega sameiningu. Síðarnefndi bankinn sleit viðræðunum í liðinni viku vegna þess ölduróts sem skapaðist í kringum Íslandsbanka í kjölfar þess að sáttin við SÍ var birt.

„Það væri í sjálfu sér ný ákvörðun að hefja viðræður á ný,“ segir Jón Guðni.

„Mín skilaboð til starfsmanna hjá okkur er að við erum bara að einbeita okkur að okkar málum núna, okkar rekstri, þjónustu við viðskiptavini og fara í þau úrbótaverkefni sem við höfum samþykkt að fara í og ég vil hafa mjög skýran fókus í því.“

Felast ekki í því skilaboð til nýrrar stjórnar um að þið þurfið heldur að einbeita ykkur að verkefnum inn á við frekar en breytingum á fjármálamarkaðnum með sameiningu við önnur félög?

„Það er kannski ekki mitt að senda skilaboð til stjórnar. Þetta eru mín skilaboð innanhúss. Fólk þarf bara að setja undir sig hausinn, láta verkin tala og gera það sem við gerum best þar og svo er hitt bara ný ákvörðun sem verður skoðuð þegar tími gefst í það.“

Hér má sjá viðtalið og heyra í heild sinni:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK