Icelandair og flugvélaframleiðandinn Airbus hafa undirritað samning um kaup á allt að 25 A321XLR flugvélum.
Samningurinn, sem undirritaður er í kjölfar viljayfirlýsingar frá 7. apríl 2023, hljóðar upp á staðfesta pöntun á þrettán A321XLR flugvélum og kauprétt á tólf vélum sömu tegundar til viðbótar. Afhending hefst árið 2029.
Kaupverð flugvélanna er trúnaðarmál og unnið verður að fjármögnun vélanna þegar nær dregur afhendingu, að því er segir í tilkynningu.
Þá kemur fram, að félagið hafi auk þess nú náð samningum við einn af núverandi leigusölum félagsins, SMBC Aviation Capital, um langtímaleigu á fjórum nýjum Airbus A321LR flugvélum sem verða afhentar frá Airbus á fjórða ársfjórðungi 2024.
„Það er mjög ánægjulegt að hafa nú gengið frá samningi við Airbus. Airbus A321XLR flugvélarnar munu skapa spennandi tækifæri til framtíðar, eru hagkvæmar í rekstri auk þess að styðja við sjálfbærnivegferð okkar. Áætlað er að við fáum fyrstu flugvélarnar samkvæmt samningnum afhentar árið 2029. Við munum hins vegar hefja rekstur á Airbus flugvélum fyrir sumarið 2025 og höfum nú samið um leigu á fjórum glænýjum Airbus A321LR þotum frá SMBC Aviation Captial, sem hefur verið einn af okkar samstarfsaðilum til lengri tíma,“ er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair í tilkynningunni.
„Við erum ánægð og þakklát Icelandair fyrir traust sitt á Airbus og tökum stolt á móti flugfélaginu sem nýjum viðskiptavini. Við höfum fulla trú á því að framúrskarandi eiginleikar A321XLR muni styðja við sjálfbæran vöxt Icelandair og hjálpa félaginu að ná markmiðum sínum um minni útblástur,“ segir Christian Scherer, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Airbus, enn fremur í tilkynningunni.