Vonar að gosið vari fram á haust

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist vona að gosið haldi áfram …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, segist vona að gosið haldi áfram í haust. Samsett mynd

„Þetta er frábært fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan fékk gríðarlegt adrenalínskot þegar Eyjafjallajökull gaus og almennt séð hjálpa þessi eldgos okkur mjög mikið. Ísland er í svakalegri samkeppni við aðra áfangastaði og þetta er bara mjög gott.“

Þetta segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play, í samtali við mbl.is. Segist hann hafa fundið fyrir auknum áhuga á Íslandi sem áfangastað í kjölfar eldgossins við Litla-Hrút og hefur bókunum fjölgað.

Í sumar sé aftur á móti erfiðara fyrir áhugasama ferðamenn að koma hingað til lands þar sem flugsæti eru mörg þegar bókuð og hægara sagt en gert að finna laus hótelherbergi.

„Við erum að keyra á 90% nýtingu. Það er hreinlega ekkert rosalega mikið af sætum eftir. Ég held líka að hótelherbergi og bílaleigubílar séu fremur upptekin og tiltölulega dýr,“ segir hann.

Aukin umferð á samfélagsmiðlum

„Við erum að sjá mikla aukningu á samfélagsmiðlum og inn í bókunarvélinni. Fólk er að skoða og pæla,“ segir Birgir. „Þetta hefur verið að gera rosalega mikið fyrir Ísland sem áfangastað og vörumerkið Ísland.“

Meginþorri þeirra ferðamanna á Íslandi koma frá Bandaríkjunum og Bretlandseyjum. Play er með fimm áfangastaði í Norður-Ameríku þangað sem flogið er til daglega. Er sætanýtingin í þeim flugferðum um 90%. Þess vegna býst hann ekki við því að fólk hópist til Íslands á næstu dögum.

„Ég ætla ekki að segja að það sé nóg af sætum en það eru alveg sæti hér og þar,“ segir hann. „Ég er að vona að þetta hangi eitthvað inn í haustið.“

Gott fyrir ferðaþjónustuna þó það hætti að gjósa

Birgir bendir einnig á að þrátt fyrir það að það hætti að gjósa hafi það enn jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Fólk hafi enn áhuga á því að skoða hraunið.

„Eins og hefur komið í ljós núna í fjölmiðlum, þó að hin tvö gosin séu hætt þá var fólk enn að labba þarna og skoða hraunið. Þetta gerir svolítið mikið fyrir Ísland sem áfangastað þar sem allt getur gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka