Gjaldþrotaskipti á öðrum ársfjórðungi þessa árs höfðu stóraukin áhrif frá fyrra ári en fjöldi launafólks hjá fyrirtækjunum sem um ræðir voru margfalt meiri á þessu ári en árinu á undan. 103 fyrirtækjanna sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi höfðu virkni á síðasta ári en þau voru 24 árið 2022.
„Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á öðrum ársfjórðungi 2023 höfðu að jafnaði um 579 launamenn árið áður sem er nærri fimmfalt fleira en á öðrum ársfjórðungi 2022 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru um 117. Greinilegt er að gjaldþrot á öðrum ársfjórðungi höfðu stóraukin áhrif frá fyrra ári þvert á atvinnugreinar, hvort sem miðað er við fjölda launafólks eða virðisaukaskattskylda veltu,“ segir á vef Hagstofu Íslands.
Þá er bent á að áhrif gjaldþrota á fjölda launafólks hafi verið óvenju lítil frá miðbiki árs 2021 til hausts 2022. Þá virðist áhrif gjaldþrota ekki meiri núna en fyrir kórónuveirufaraldurinn.
„Ef horft er lengra aftur í tímann sést að launafólki gjaldþrota fyrirtækja á öðrum ársfjórðungi 2023 fjölgaði um 16,5% frá 2021 (úr 497) en fækkaði um 47% frá 2020 (úr 1.085) sem er ársfjórðungurinn sem markar upphaf kórónuveirufaraldursins. Ef borið er saman við annan ársfjórðung 2019 nemur fækkunin 25% (úr 773).“
Í júní var 121 fyrirtæki tekið til gjaldþrotaskipta en af þeim höfðu 28 virkni á fyrra ári. Það þýðir að annað hvort var fyrirtækið með launamenn samkvæmt staðgreiðsluskrá eða virðisaukaskattskýrslum.