1,9 milljarða hagnaður Icelandair

Icelandair skilaði 1,9 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi 2023
Icelandair skilaði 1,9 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi 2023 mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair skilaði 1,9 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi 2023, samanborið við 520 milljóna króna hagnað á öðrum fjórðungi síðasta árs. Hefur félagið ekki skilað betri afkomu á öðrum ársfjórðungi síðan 2016, að því er kemur fram í uppgjöri félagsins sem birt var í dag.

Þá nam EBIT hagnaður félagsins 20,9 milljónum dala á fjórðungnum, eða 2,9 milljörðum króna, sem er aukning um 2,7 milljarða króna á milli ára.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir í tilkynningu að góð sætanýting, lágur eldsneytiskostnaður og hagkvæmni nýrra véla hafi átt stóran þátt í jákvæðri afkomu félagsins.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Bogi segir í tilkynningu að …
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Bogi segir í tilkynningu að góð sætanýting, lágur eldsneytiskostnaður og hagkvæmni nýrra véla hafi átt stóran þátt í jákvæðri afkomu félagsins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Sögulega há sætanýting og mettekjur í farþegaleiðakerfinu skilaði okkur næstum tveggja milljarða króna hagnaði. Lægri eldsneytiskostnaður vegna hagkvæmni Boeing 737 MAX vélanna og lægra eldsneytisverðs hafði einnig góð áhrif á afkomu félagsins. Þar að auki gekk leiguflugstarfsemi okkar áfram vel og skilaði góðri arðsemi í fjórðungnum,“ segir Bogi.

Söguleg flugáætlun 

Bogi segir Icelandair hafa undirbúið stærstu flugáætlun í sögu félagsins fyrir sumarið.

„Það má með sanni segja að fyrstu sex mánuðir ársins hafi verið viðburðarríkir við undirbúning stærstu flugáætlunar í sögu félagsins í sumar þegar kemur að fjölda áfangastaða og tíðni. Við kynntum fimm nýja áfangastaði, bættum sex flugvélum við flotann, fluttum 1,8 milljónir farþega og tókum á móti hátt í 1.200 nýjum starfsmönnum,“ segir Bogi.

Gerir ráð fyrir því að skila hagnaði á árinu 

Bogi telur að rekstrarhorfur fyrir seinni hluta árs séu góðar. Hann gerir ráð fyrir því að félagið muni skila hagnaði á árinu 2023.

„Horfurnar fyrir seinni hluta ársins eru góðar og bókunarstaða sterk, sérstaklega frá Norður-Ameríku. Eftirspurn eftir flugi til og frá Íslandi hefur verið mikil undanfarna mánuði. Þá hefur flugframboð um Keflavíkurflugvöll aukist hratt og í sumar er það um 20% umfram framboðið á sama tíma árið 2019 og gert er ráð fyrir enn meiri aukningu í vetur miðað við 2019. Búist er við að þessi þróun muni hafa áhrif á fargjöld og tekjuvöxt á einhverjum mörkuðum seinni hluta ársins.

Við erum í sterkri stöðu, nú sem fyrr, til að laga okkur að markaðsaðstæðum. Spá okkar um 4-6% EBIT hlutfall fyrir árið í heild er óbreytt og við gerum þar af leiðandi ráð fyrir að skila hagnaði á árinu 2023,” segir Bogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK