Forsvarsmenn Netflix greindu frá því í gær að áskriftum streymisveitunnar hafi fjölgað um sex milljónir í kjölfar þess að fyrirtækið skar upp herör gegn ólöglegri dreifingu lykilorða.
Áskrifendur Netflix á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru 238 milljónir talsins og hagnaðist fyrirtækið um 1,5 milljarða dala, sem samsvarar um 196 milljörðum kr.
Á sama tíma og Netflix fjölgar áskrifendum standa yfir harðar kjaradeilur í Hollywood þar sem handritshöfundar og leikarar hafa lagt niður störf til að berjast fyrir bættum kjörum. Sérfræðingar segja að Netflix sé í betri stöðu en helstu samkeppnisaðilar þegar kemur að því að standa af sér storminn.
Netflix fór að taka harðar á ólöglegri dreifingu lykilorða fyrr á þessu ári, en fyrirtækið hafði kvartað yfir því að rúmlega 100 milljón heimili væru að deila aðgangi út fyrir nánustu fjölskyldu. Forsvarsmenn Netflix segja ljóst að aðgerðirnar hafi skilað sér.