Aukinn kostnaður við byggingu nýrra höfuðstöðva Landsbankans við Austurhöfn hefur ekki leitt til hækkunar á kaupverði íslenska ríkisins á norðurhluta hússins. Þetta kemur fram í svari Landsbankans við fyrirspurn ViðskiptaMoggans.
Er tilkynnt var um kaup ríkisins á norðurhúsi Landsbankahússins kom fram að ríkissjóður greiddi 4,6 milljarða króna fyrir húsnæðið, miðað við skil á húsinu í samræmi við upphaflegar áætlanir.
Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að húsnæði á jarðhæð og í kjallara yrði skilað tilbúnu til innréttinga, á meðan skrifstofuhúsnæði á 2.-4. hæð yrði afhent fullbúið.
Í kaupsamningnum var aukinheldur kveðið á um að bankinn afhenti alla húshluta fullbúna og var áætlað að um 1,4 milljarðar króna bættust við kaupverðið vegna fullnaðarfrágangs á jarðhæð og kjallara og aðlögunar að starfsemi ríkisins.
Kaupverðið var því áætlað samtals um sex milljarðar króna og nú er ljóst að kaupverð helst óbreytt þrátt fyrir aukinn kostnað.
Meira í ViðskiptaMogganum í gær, miðvikudag.