Stjórnarkjör Íslandsbanka í skugga sáttar

Fundurinn hefst klukkan ellefu.
Fundurinn hefst klukkan ellefu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hluthafafundur Íslandsbanka hefst klukkan ellefu á Grand Hótel Reykjavík í dag.

Á fundinum verður fjallað um sátt Íslandsbanka við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) og viðbrögð bankans við henni. Þá verður kosið í stjórn og varastjórn bankans. 

Í júní var greint frá því að Íslands­banki hefði gengist við því að hafa ekki starfað fyllilega í sam­ræmi við eðli­lega og heil­brigða viðskipta­hætti og venj­ur í verðbréfaviðskipt­um vegna fram­kvæmd­ar á útboði á 22,5% eign­ar­hlut rík­is­ins í bank­an­um sem fram fór í mars í fyrra.

Féllst bankinn á að greiða 1,2 millj­arða króna í sekt vegna máls­ins. Um er að ræða lang­hæstu sekt sem lögð hef­ur verið á fjár­mála­fyr­ir­tæki hér á landi.

Eftir að upplýst var um efni sáttarinnar varð hörð þjóðfélagsumræða sem meðal annars leiddi til afsagnar Birnu Einarsdóttur bankastjóra. Í framhaldi var hluthafafundurinn í dag boðaður að ósk Bankasýslu ríkisins.

Verður ekki sjálfkjörið í stjórn

Ljóst er að ekki verður sjálfkjörið í stjórnina á fundinum í dag þar sem fjórir bjóða sig fram án tilnefningar Bankasýslu ríkisins og tilnefningarnefndar Íslandsbanka. Það eru þau Ásgeir Brynj­ar Torfa­son, sjálfstætt starfandi fræðimaður og ráðgjafi, Elín Jó­hann­es­dótt­ir, sem er í sérverkefnum fyrir Vigur fjárfesting ehf., Frosti Sig­ur­jóns­son, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, og Helga Hlín Há­kon­ar­dótt­ir, meðeigandi og ráðgjafi hjá Strategíu ráðgjafafyrirtæki. Þess má geta að Helga Hlín er tilnefnd af Gildi lífeyrissjóði sem er annar stærsti hluthafi Íslandsbanka.

Tilnefningarnefnd Íslandsbanka hefur tilnefnt fjóra til stjórnarsetu. Bankasýsla ríkisins tilnefnir þrjá í stjórn bankans, en hún tilnefnir það hlutfall stjórnarmanna sem samsvarar eignarhluta ríkisins þegar kjör stjórnar fer fram. Alls eru sjö sæti í stjórninni.

Þrettán stærstu hluthafa Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins fer með 42,5% hlut …
Þrettán stærstu hluthafa Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins fer með 42,5% hlut í bankanum. Þrettán stærstu hluthafarnir fara með rúm 83% hlutfjár. Samsett mynd

Á síðasta árlega aðalfundi Íslandsbanka þann 16. mars var kjörið í stjórn, líkt og skylt er að gera samkvæmt samþykktum bankans.

Sjálfkjörið var í stjórn en það er ekki óvenjulegt. Ef skoðaðar eru fundargerðir aðalfundar bankans má sjá að sjálfkjörið hefur verið í stjórn frá 2014, en ekki er hægt að nálgast eldri fundargerðir aðalfundar á heimasíðu bankans. Af öðrum fundargerðum, t.d. frá árunum 2010 og 2013, má ráða að um langa hríð hefur tíðkast að stjórn bankans sé sjálfkjörin, samkvæmt tilnefningum.

Núverandi stjórn Íslandsbanka. Finn­ur Árna­son (efstur til vinstri), Guðrún Þor­geirs­dótt­ir …
Núverandi stjórn Íslandsbanka. Finn­ur Árna­son (efstur til vinstri), Guðrún Þor­geirs­dótt­ir (efst til hægri) og Ari Daní­els­son (neðstur til vinstri) gáfu ekki kost á sér til áfram­hald­andi stjórn­ar­setu. Agnar Tómas Möller, Anna Þórðardóttir, Valgerður Hrund Skúladóttir og Frosti Ólafsson sitja í stjórn og eru tilnefnd til áframhaldandi stjórnarsetu. Samsett mynd

Bankasýslan tilnefnir einn nýjan stjórnarmann

Eins og áður sagði tilnefnir Banka­sýslan nú þrjá ein­stak­linga í stjórn en einnig tilnefnir hún einn vara­mann.

Til aðalstjórnar tilnefnir Bankasýslan þau Önnu Þórðardótt­ur, sjálfstætt starfandi, Agn­ar Tóm­as Möller, sjálfstætt starfandi ráðgjafa, og Hauk­ Örn Birg­is­son, eiganda og framkvæmdastjóra Íslensku lögfræðistofunnar. Her­dís Gunn­ars­dótt­ir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, er tilnefnd til varastjórnar.

Bæði Anna og Agnar sitja í stjórn bankans. Anna hefur setið í stjórninni frá árinu 2016 en Agnar var kjörinn á síðasta aðalfundi í mars. Haukur Örn er tilnefndur í stað Guðrúnar Þorbergsdóttur, varaformanns stjórnarinnar, en hún gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Herdís hefur setið í varastjórn bankans frá árinu 2016.

Þetta er þau sjö sem Bankasýslan og nefnd Íslandsbanka tilnefna …
Þetta er þau sjö sem Bankasýslan og nefnd Íslandsbanka tilnefna til stjórnar. Linda Jónsdóttir, sem er efst á mynd, er tilnefnd til formennsku í stjórn. Að neðan frá vinstri: Haukur Örn Birg­is­son, Stefán Pétursson, Anna Þórðardóttir, Agn­ar Tóm­as Möller, Val­gerður Hrund Skúla­dótt­ir og Frosti Ólafs­son. Samsett mynd

Linda Jónsdóttir formannsefni

Til­nefn­ing­ar­nefnd Íslands­banka tilnefnir Lindu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra rekstrar hjá Marel, Frosta Ólafs­son, framkvæmdastjóra Olís ehf., Stefán Pét­urs­son, fjármálastjóra hjá lyfjaþróunarfyrirtækinu EpiEndo Pharmaceuticals ehf. og Val­gerði Hrund Skúla­dótt­ur, framkvæmdastjóra Sensa ehf. Til varastjórnar er Páll Grét­ar Stein­gríms­son, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, tilnefndur.

Frosti og Valgerður eru bæði stjórnarmenn. Frosti hefur setið í stjórninni síðan árið 2020 en Valgerður var kjörin á síðasta aðalfundi. Stefán og Linda eru tilnefnd í stað Finns Árnasonar stjórnarformanns og Ara Daníelssonar stjórnarmanns, en þeir gáfu ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Páll Grétar hefur setið í varastjórn frá því í fyrra.

Þá leggur tilnefningarnefnd, í samráði við stjórn Bankasýslu ríkisins, til að Linda verði kjörin formaður stjórnar.

Uppfært kl. 10.35. Upphaflega var greint frá því að Helga Hlín byði sig fram án tilnefningar. Hið rétta er að hún er tilnefnd af Gildi lífeyrissjóði.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK