Fagna úrskurði Skipulagsstofnunar

Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Fjallabaðanna.
Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Fjallabaðanna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég er mjög ánægður með þessa niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Hún kemur mér svo sem ekki á óvart enda hafa Fjallaböðin næsta lítið breyst frá því að stofnunin komst að þeirri niðurstöðu árið 2019, að böðin þyrftu ekki í umhverfismat. Þau hafa líka alltaf verið með sterka umhverfisnálgun. Má þar til dæmis nefna hátt skor í Breeam vottunarkerfinu, plöntun 120 þúsund plantna til kolefnisjöfnunar strax við opnun og svo bílastæði við mynni dalsins til að draga úr álagi á friðlýstan hluta Þjórsárdals,“ segir Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Fjallabaðanna.

Sérstaklega sé vandað til frárennslismála. Framkvæmdin geri til dæmis ráð fyrir tveggja þrepa hreinsistöð fyrir fráveitu og affallsvatn, auk þess sem frárennslið verði leitt til frekari hreinsunar í siturbeði. Eftir hreinsun affallsvatns og vatns úr húsakerfum er stærstum hluta þess dælt niður í jarðlög til að viðhalda eðlilegum vatnabúskap á svæðinu.

Misskilningur leiðréttur

Magnús segir að það hafi gætt ákveðins misskilnings við fyrri umsögn Umhverfisstofnunar, þar sem lagðar voru saman gestatölur fyrir Fjallaböðin annars vegar og Gestastofu Þjórsárdals hins vegar. „Þessi misskilningur var svo leiðréttur á góðum fundi sem við áttum með starfsfólki Umhverfisstofnunar og oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Umhverfisstofnun sendi inn nýja umsögn.

Fjallaböðin munu setja mikinn svip á Þjórsárdal og verða mikilvæg …
Fjallaböðin munu setja mikinn svip á Þjórsárdal og verða mikilvæg viðbót við íslenska ferðaþjónustu. Nýr segull er að verða til

Nú höldum við ótrauð áfram við byggingu Fjallabaðanna sem verða mikil prýði enda einstaklega vandað til alls undirbúnings. Við stefnum að opnun í upphafi árs 2026. Ég hlakka svo til að eiga gott samstarf við Umhverfisstofnun og aðra um áframhaldandi þróun Gestastofunnar í Þjórsárdal. Hún verður einstök, enda reist við Sandá í mynni dalsins þar sem verður móttaka Fjallabaðanna, sýningar og veitingaþjónusta.“

Framkvæmdir hefjast næsta vetur

Líkleg fjárfesting Rauðukamba vegna byggingar Fjallabaðanna og Gestastofu við Selárhöfða er um 8 milljarðar króna. Jarðvinna hefst af fullum krafti í vetur og uppsteypa Fjallabaða er áætluð næsta vor. Framkvæmdir við Gestastofu hefjast á sama tíma og er stefnt að því að þau verði tilbúin haustið 2025 þegar hún verður opnuð og Fjallaböðin sjálf um áramótin 2025-2026 ásamt hóteli og veitingastað auk baðlóna sem verða að hluta til staðsett inni í fjallinu Rauðukömbum.

Óvissu létt

Eftir umsögn Umhverfisstofnunar í júní, um að gera þyrfti umhverfismat vegna Fjallabaðanna, kom upp óvissa um hvenær framkvæmdir gætu hafist gengi það eftir. Sá hnútur hefur nú verið leystur eftir að eigendur Rauðukamba, sem standa að uppbyggingunni, skýrðu áætlanir sínar nánar. Skipulagsstofnun skarst í málið í kjölfarið sem hefur nú úrskurðað að uppbyggingin þurfi ekki að gangast undir umhverfismat eins og greint var frá í Morgunblaðinu í gær.

Áætlaðar framkvæmdir eru því komnar á fullt skrið á ný en böðin munu hafa mikil áhrif á svæðinu, m.a. á Skeiða- og Gnúpverjahrepp sem sér fram á jákvæð áhrif af starfsemi þeirra og fjölgun starfa auk þess að koma Þjórsárdal betur á kort ferðamanna með aukinni þjónustu. Áætlað er að 73.500 gestir muni sækja böðin heim á hverju ári en enn fleiri Gestastofuna enda margvísleg uppbygging fyrirhuguð á svæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka