Ítalski samlokustaðurinn Cibo Amore opnaði í Hamraborginni 16. júní. Staðurinn býður upp á ítalskar samlokur með fersku hráefni og einnig kaffi og ís. Þráinn Júlísson, einn af stofnendum staðarins segir að þau hafi varla haft undan við að útbúa samlokur fyrir viðskiptavini.
„Við höfum fengið gífurlega góðar viðtökur og höfum selt um það bil 3.000 samlokur síðan við opnuðum fyrir um sex vikum síðan. Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum og við lendum oft í því að allar þær samlokur sem við höfum útbúið klárast um miðjan dag. Þannig að við erum alltaf að elta skottið á okkur,“ segir Þráinn og bætir við að það sé ótrúlegt að hugsa til þess hversu hratt það gekk fyrir sig að opna staðinn.
Að staðnum standa ásamt Þráni þau Kristín Gyða Smáradóttir og Davíð Már Sigurðsson. Þráinn segir að hugmyndin hafi kviknað þegar Davíð fór til Rómar og rambaði inn á ítalskan samlokustað.
„Í kjölfarið kemur hann til mín með hugmynd að því að opna stað í sama stíl. Síðan förum við báðir til Rómar og prófum hina ýmsu samlokustaði og veljum úr hvað okkur finnst best. Þetta var í október og við opnuðum í júní þannig þetta gekk hratt fyrir sig.“
Ítarlegra viðtal má lesa í Morgunblaðinu sem kom út á fimmtudag.