Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði að meðaltali 7,8% á þriðja fjórðungi þessa árs. Þeir gera ráð fyrir að verðbólga hjaðni á komandi misserum og verði 5,6% eftir eitt ár en í síðustu könnun væntu þeir þess að verðbólga yrði 6,3% að ári liðnu.
Þetta gefa niðurstöður úr könnun Seðlabanka Íslands til kynna sem bankinn framkvæmdi 8. til 10. ágúst. Bankinn kannaði væntingar 38 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga.
Verðbólguvæntingar til tveggja og fimm ára voru 4,5% og 4% og voru óbreyttar milli kannana. Langtímaverðbólguvæntingar hækkuðu lítillega og búast markaðsaðilar við að verðbólga verði að meðaltali 3,6% á næstu tíu árum en 3,5% í síðustu könnun. Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar breytist lítið á næstunni og að gengi evru gagnvart krónu verði 145 krónur eftir eitt ár.
Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að meginvextir verði hækkaðir um 0,25 prósentur á yfirstandandi fjórðungi og verði þá 9%. Í síðustu könnun bankans í maí bjuggust þeir við því að meginvextir næðu hámarki í 8,5% á öðrum ársfjórðungi. Þá búast þeir við því að meginvextir taki að lækka á fyrsta fjórðungi næsta árs og verði 7,75% eftir eitt ár. Það eru lægri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í síðustu könnun en væntingar þeirra um meginvexti eftir tvö ár eru óbreyttar í 6%.
Eftir hækkun vaxta Seðlabankans í maí hefur töluverð breyting orðið á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar. Flestir töldu að taumhaldið væri hæfilegt um þessar mundir eða 44% svarenda en hlutallið var 17% í síðustu könnun. Á móti fækkaði þeim sem töldu taumhaldið of laust í 30% samanborið við 66% í síðustu könnun en hlutfall þeirra sem taldi taumhaldið of þétt jókst í 26% úr 17%.