Alþýðusamband Íslands (ASÍ) mun hætta í viðskiptum við Íslandsbanka. Fylgir sambandið í fótspor VR sem tilkynnti í morgun að öllum viðskiptum við bankann yrði slitið vegna brota bankans við sölumeðferð á hlut ríkisins í bankanum.
Í yfirlýsingu í dag segir að viðbrögð bankans og svör forsvarsmanna hans við kröfum VR séu að mati stjórnar VR ófullnægjandi, en félagið hafði kallað eftir því að stjórn bankans og það starfsfólk sem ábyrgð bar á lögbrotum myndi axla ábyrgð.
Vísir greinir frá því að miðstjórn ASÍ hafi nú ákveðið að hætta í viðskiptum við bankann. Ekki náðist í Finnbjörn A. Hermannson, forseta ASÍ, við vinnslu fréttarinnar.