Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 9,25%.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Um er að ræða 14. stýrivaxtahækkun peningastefnunefndar í röð síðan vaxtahækkunarferlið hófst í maí árið 2021.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar kemur fram að verðbólguhorfur til lengri tíma hafi lítið breyst þótt horfur til skamms tíma hafi batnað frá því í maí. Þá séu verðbólguvæntingar til lengri tíma vel yfir markmiði. Því sé enn hætta á að verðbólga reynist þrálát.
Í ljósi þess sé nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum sé mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar séu um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Kynningarfundur verður haldinn klukkan 9.30 vegna yfirlýsingar nefndarinnar, útgáfu Peningamála og vaxtaákvörðunar.