Nokkuð harður tónn er í yfirlýsingu peningastefnunefndar í dag, um að áfram sé nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar. Vangaveltur voru uppi um hvort þarna væri verið að rökstyðja þá hækkun sem tilkynnt var í dag eða verið að undirbúa jarðveginn fyrir jafnvel frekari vaxtahækkanir í haust.
Í svörum stjórnenda Seðlabankans á kynningarfundi peningastefnunefndar í morgun virtust öll tvímæli tekin af um að þarna væri bankinn að horfa til þess sem koma gæti í framtíðinni.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri sátu fyrir svörum þegar Konráð Guðjónsson, hagfræðingur hjá Arion banka, spurði hvernig túlka ætti eftirfarandi setningu í tilkynningu nefndarinnar: „Í ljósi þess er nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar enn frekar. Einkum er mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Vísbendingar eru um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri séu að koma skýrar fram og mun peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“
Ásgeir sagði að þarna væri verið að bregðast við hækkuninni núna, en hér væri enn „yfirspennt hagkerfi“ og ársbreyting launavísitölunnar komin í 10%. Sagði hann að þrátt fyrir að búið væri að hækka vexti umtalsvert undanfarið, eða úr 0,75% upp í 9,25% í fjórtán síðustu vaxtaákvörðunum, þá myndi bankinn fylgjast vel með áhrifum vaxtahækkananna og hvort þær muni koma fram.
Sagði hann vitað að áhrif vaxtahækkana í vor væru ekki enn alveg komin fram og að bankinn yrði að fylgjast með þeirri þróun.
Rannveig ítrekaði að þessi setning í yfirlýsingunni, sem væri jafnframt síðasta setning yfirlýsingarinnar, væri að vísa til þess gæti gerst í framtíðinni og staðfesti þar með að bankinn myndi horfa til frekari aðgerða ef verðbólga færi ekki að lækka frekar.