Seðlabankinn spáir nú 3,5% hagvexti á árinu, samanborið við 4,8% hagvöxt sem spáð var í maíspá bankans. Þetta kemur fram í nýju hefti Peningamála sem komu út í morgun samhliða ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti Seðlabankans um 0,5 prósentustig upp í 9,25%.
Í heftinu kemur fram að hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi hafi verið heldur minni en búist var við í maí, þótt hann hafi enn verið kröftugur og mælst 7%. Hafði verið gert ráð fyrir enn meiri vexti einkaneyslu og þá hafi fjárfestingarumsvif, sérstaklega í íbúðabyggingu og orkufrekum iðnaði, verið talsvert minni en áætlað hafi verið.
Þá virðist eftirspurnin áfram að kólna. „Vísbendingar eru um að vöxtur innlendrar eftirspurnar hafi gefið enn frekar eftir á öðrum fjórðungi ársins,“ segir í heftinu og hefur það þau áhrif að hagvaxtarspáin fyrir árið hefur lækkað. Hins vegar eru hagvaxtarhorfur fyrir næstu tvö ár lítið breyst.