Greinendur segja síðustu vaxtahækkun Seðlabankans munu hækka byggingarkostnað enn frekar. Hins vegar er óvissa um hversu margar íbúðir þarf að byggja til að mæta þörf.
Ein af breytunum í því reikningsdæmi er aðflutningur erlendra ríkisborgara. Um 16 þúsund fleiri erlendir ríkisborgarar hafa flust til landsins en frá því frá ársbyrjun 2022.
Þorsteinn Arnalds, tölfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), segir erfitt að meta nákvæmlega hvaða áhrif aðflutningurinn hafi á eftirspurn eftir íbúðum.
Spurður hver hin undirliggjandi þörf sé nú á markaðnum segir Þorsteinn að HMS áætli enn að byggja þurfi 3.000-4.000 íbúðir á ári næstu tíu árin á landinu öllu.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir skýr merki um samdrátt í uppbyggingu nýrra íbúða. Máli sínu til stuðnings vísar hann til tölfræði sem fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Samkvæmt henni hefur bilið aukist milli þess fjölda íbúða sem talið er að þurfi að byggja og verið er að byggja.
Yngvi Harðarson framkvæmdastjóri Analytica segir vaxtahækkanir Seðlabankans auka fjármagnskostnað við byggingu íbúða. Fyrir vikið verði framkvæmdir dýrari, sem sé líklegt til að draga úr framboði nýrra íbúða á markaði. „Seðlabankinn er því í erfiðri stöðu. Svo er spurning hvort atvinnuleysi eykst eða fólksflutningar til og frá landinu breytast. Kjaraviðræður í haust og vetur flækja einnig málin,“ segir Yngvi.
Sigurður Hannesson segir ekki hægt að ganga út frá því að minni eftirspurn muni leiða til lægra lóðaverðs. Það sé enda slegist um lóðir.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.