Stefán E. Stefánsson
Forystumenn ríkisstjórnarinnar eru sammála um að áfram skuli haldið við að losa um eignarhald ríkisins í Íslandsbanka. Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í Dagmálum.
„Þegar ég ræði þetta við samstarfsmenn mína í ríkisstjórninni, forystumenn hinna flokkanna, þá finn ég engan bilbug á neinum um að við eigum að halda áfram að losa um eignarhaldið. Við erum hins vegar ekki búin að botna það endanlega með hvaða hætti það verður gert,“ segir Bjarni.
„Allir eru hins vegar sammála um að við eigum að gera það með sem opnustum hætti þannig að allir ættu jafnan aðgang að því að taka þátt og svo framvegis, draga lærdóm af því sem gagnrýnt hefur verið við síðustu sölu. En það er enginn að hrökkva frá því að losa um eignarhaldið.“
Enn sem komið er hefur ekki verið ráðist í sölu á hlutum í bankanum á þessu ári, þrátt fyrir að í fjárlögum fyrir árið 2023 hafi verið gert ráð fyrir að ríkið fengi 70 milljarða á tímabilinu í sína hönd sem söluandvirði fyrir hluti í bankanum.
Ríkið á enn 42,5% hlut í bankanum en markaðsvirði hlutarins er nærri 100 milljarðar króna, miðað við dagslokagengi í Kauphöll Íslands á föstudag.
Bendir Bjarni í viðtalinu á að rekstur ríkissjóðs hafi verið mjög hagfelldur á árinu vegna aukinna efnahagsumsvifa og það valdi því að þótt ekkert hafi verið selt í bankanum á árinu þá sé lausafjárstaða ríkisins 90 milljörðum betri en ráð var fyrir gert.
Viðtalið við Bjarna Benediktsson má sjá og heyra í heild sinni hér: