Lilja Alfreðsóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, skorar á íslensku bankana að minnka vaxtamun. Auk þess bendir hún á að minnka þurfi gengisálag í kortaviðskiptum hjá bönkunum.
Þetta sagði hún á kynningarfundi í tengslum við skýrslu starfshóps um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna þriggja, þ.e. Landsbankann, Íslandsbanka og Arion banka, í norrænum samanburði.
„Ég hefði nú bara ekki trúað því […] að þetta væri þannig að það væri ódýrara að vera með reiðufé,“ sagði ráðherra á fundinum.
Starfshópurinn segir „að bankarnir hafi heilt yfir náð fram verulegri hagræðingu í starfsemi sinni“. Kostnaðarhlutföllin virðist vel samkeppnishæf við banka á hinum Norðurlöndunum.
Þá séu verðskrár bankanna ítarlegar og nokkuð tæmandi en verðupplýsingar séu hins vegar „ekki ávallt með þeim hætti að neytendur geti fljótt og örugglega borið saman verð á mismunandi þjónustuþáttum milli bankanna,“ að því er hópurinn segir.
Hópurinn segir einnig að gjaldtaka íslensku bankanna af kortaviðskiptum í erlendri mynt sé dulin en vegi engu að síður þungt í útgjöldum heimilanna fyrir fjármálaþjónustu.
„[Gengisálag] kemur hvergi fram í verðskrám bankanna og virðist vera breytilegt milli gjaldmiðla og frá einum tíma til annars,“ segir í skýrslunni. Álag á greiðslukortaviðskipti í erlendri mynt sé einnig hátt hjá íslensku bönkunum og „í flestum tilfellum töluvert hærra en það álag sem hinir norrænu bankarnir rukka fyrir erlenda kortanotkun.“
Starfshópurinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að kostnaður þjóðfélagsins vegna greiðslumiðlunar væri mun hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum. Þar að auki væri samfélagslegur kostnaður hverrar debetkortafærslu minni en kreditkortafærslna og seðlagengi almennt hagstæðara en kortagengi bankanna.
Með einfölduðum hætti megi áætla að heimilin hafi greitt bönkunum um 6,6 milljarða kr. í gengisálag ofan á almennt gengi árið 2022 fyrir það að nota greiðslukort sín í erlendum færslum. Óvíst er hversu stór hluti þessa gengisálags rennur til erlendu kortafyrirtækjanna Visa og Mastercard.
„Til samanburðar, hefðu þessi viðskipti átt sér stað með reiðufé í stað greiðslukorta hefði gengisálag bankanna ofan á almennt gengi (seðlagengi) numið alls 4,9 milljörðum kr. eða 1,6 milljörðum minna en í tilfelli greiðslukortaviðskipta“.
Starfshópurinn leggur til að svokölluð samanburðarvefsjá verði gerð til að auðvelda neytendum að bera saman verð á fjármálaþjónustu.
Önnur tillaga hópsins er aukning á gagnsæi við gjaldtöku í greiðslumiðlun og aukning upplýsingagjöf um álagningu bankanna vegna gengismunar. Einnig leggur hópurinn til að dregið verði úr kostnaði í innlendri greiðslumiðlun.
Einnig er lögð til efling á fjármálalæsi almennings frá hlutlausum aðilum og að stjórnvöld búi til „skýran ramma og leikreglur“, að almenningur verði betur í stakk búinn til að taka ákvarðanir.