Arðsemi bankans hófleg

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir horfa þurfi á hagnaðartölur bankanna í samhengi. Ávöxtunarkrafa bankans sé 10% og þó hagnaðartölur á borð við 14,5 milljarða króna hljómi háar þá sé hægt að horfa til þess að innlánsvextir séu að nálgast 9% og álagning því ekki mikil.

„Hagnaður bankans endurspeglar eðlilega ávöxtun á eigið fé bankans. Hún er hófleg í samanburði við aðra banka, stærð bankans og í samanburði við vaxtastig í landinu. Öll fyrirtæki þurfa að skila hagnaði til að geta starfað áfram. Það er beinlínis eftirlit með bönkum þannig að þeir séu að skila hagnaði,“ segir Lilja Björk. 

Ýmissa grasa kennir í skýrslu sem Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra lét gera um starfsemi bankanna. Meðal annars óskýrleiki í gjöldum og óhófleg álagning, samhliða of miklum vaxtamun. 

Arðsemi rétt yfir sparnaðarvöxtum 

„Stór hluti þjónustugjalda hefur lækkað að raungildi undanfarin ár, þ.e. krónutalan hefur haldist óbreytt. Ef við horfum á vaxtamuninn á algengri vöru eins og á húsnæðislánum þá er hann um tvö prósent. Við erum alltaf að leita leiða til að lækka útlánavexti á sama tíma og við bjóðum upp samkeppnishæfan sparnað. Munurinn á óbundnum sparnaði og breytilegum vöxtum á húsnæðisláni er lágur núna, eða 2 prósent,“ segir Lilja. 

Hún bendir jafnframt á að í skýrslunni komi fram að vaxtamunur heimilanna hafi lækkað. „Við erum að reyna að bjóða þannig þjónustu að við séum að bjóða sanngjarnt verð. Góða þjónustu samhliða því að ná ásættanlegri arðsemi fyrir bankann. Í því samhengi má benda á að arðsemin er rétt rúm tíu prósent og það er rétt yfir sparnaðarvöxtum,“ segir Lilja. 

Hagnaður var 14,5 milljarðar króna á fyrri hluta árs og var það 10,3% arðsemi á eigið fé. „Í því vaxtasstigi sem við erum með í dag þá þykir síst óhóflegt að vera 10% arðsemi. Þú getur fengið nálægt 9% ávöxtun með því að leggja pening inn í banka. Tíu prósent arðsemiskrafa er því mjög hófleg,“ segir Lilja.   

Hægt að gera betur 

Eitt af því sem gagnrýnt var í skýrslu viðskiptaráðherra er sá óskýrleiki sem þykir vera í gjaldskrá bankanna meðal annars varðandi gengismun þegar kort eru notuð. 

„Það er örugglega hægt að gera betur þarna. Sérstaklega þurfum við kannski að velja ákveðna algenga þjónustu og hafa hana skýrara framsetta. En gagnrýnin snýst líka um óskýrleika í gengismun á kortum sem hægt er að sjá í appi og á vefsíðu. En það þarf kannski að koma betur fram hvar þetta er að finna. En já ég held að það sé ljóst að og gegnumgangandi verkefni að gera betur þarna, þannig að fólk skilji og finni þesssar upplýsingar,“ segir Lilja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK