Bankastjóri Íslandsbanka segir að bankinn sé heilt yfir ánægður með það sem fram kemur í nýrri skýrslu starfshóps, um gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna í norrænum samanburði.
Skýrslan, sem var kynnt á fundi í gær, sýnir fram á það að bankarnir hafi náð að hagræða mikið á síðustu fimm árum en jafnframt sé enn sumt sem mætti betur fara.
„Það eru einhverjir staðir þar sem mætti gera betur en heilt yfir sýnir þetta að það sé búið að ná miklum árangri á síðustu árum – það er búið að ná niður mjög miklum kostnaði og við erum samkeppnishæf við útlönd á mjög mörgum stöðum,“ segir Jón Guðni Ómarsson, bankastjóri Íslandsbanka, í samtali við mbl.is.
„Heilt yfir erum við nokkuð ánægð með þennan samanburð.“
Í skýrslunni segir að arðsemi bankana sé svipuð því sem finnst í nágrannalöndum en vaxtamunur sé aftur á móti hærri. „Það sakast af háu vaxtastigi,“ segir Jón.
Eitt af því sem kom fram í skýrslu starfshóps var það að verðskrár bankanna væru gjarnar óskýrar og verðupplýsingar „ekki ávallt með þeim hætti að neytendur geti fljótt og örugglega borið saman verð á mismunandi þjónustuþáttum milli bankanna“.
„Við erum alltaf að skoða hvernig við getum sett [verð] fram á skýrari hátt í verðskrám,“ segir Jón, sem telur þó að hægt sé að finna „allar ítarlegar upplýsingar“ á vef bankans.
Viðskiptaráðherra nefndi á kynningarfundinum í gær að bankar þyrftu að lækka gengisálag sitt.
„Það er eitthvað sem við skoðum alltaf,“ segir Jón. „Hvar við getum gert betur svo við séum að tryggja sem best kjör en á sama tíma tryggja eðlilega arðsemi fyrir hluthafa.“
„Ég held að það sé enginn geiri sem hefur náð að hagræða eins mikið og fjármálageirinn,“ segir bankastjórinn.
„Miðað við það að við séum með svipaða arðsemi og erlendir bankar, má segja að hluti af því renni til viðskiptavina.“
Spurður hvort bankinn ætli að taka einhver skref í ljósi þess sem fram kemur í skýrslunni svarar Jón:
„Það er ekkert búið að ákveða, við eigum eftir að skoða og kynna okkur skýrsluna almennilega. Þetta er bara eitthvað sem er alltaf í skoðun.“