Birgir Jónsson, forstjóri Play, staðfestir að fyrirtækið hafi boðið flugmönnum sínum veglega launahækkun en kveðst þó ekki geta staðfest þær upphæðir sem fjölmiðlar hafa greint frá.
Túristi greindi frá því í morgun að fjöldi flugmanna Play hefði fengið atvinnutilboð frá Icelandair sem svara þarf fyrir miðnætti.
Samkvæmt Túrista eru um að ræða 53 prósent launahækkun og myndu grunnlaun óbreyttra flugmanna hækka úr 470 þúsund krónum í 718 þúsund krónur og grunnlaun flugstjóra hækka úr 880 þúsund í 1.130 milljón.
Birgir segir tölurnar sem greint hafi verið frá ekki standast enda séu launaútreikningar þessara stétta flóknari en svo.
„Þessar tölur sem hafa verið nefndar – og ég bara las í Túrista eins og þú, eru ekki í takt við það sem við erum að gera,“ segir Birgir en bætir við að hann telji tilboð Play engu að síður samkeppnishæft.
Aðspurður segir hann launahækkanirnar hafi verið í bígerð síðan í byrjun sumars, enda mikil eftirspurn eftir starfsfólki í flugbransanum. Hann segir tilboð Icelandair þó vissulega hafa flýtt fyrir tilboðinu.
„Þetta eru þannig upphæðir að þetta er ekki eitthvað sem þú hendir fram úr erminni á hálftíma.“
Hann segir hafa staðið til að tilkynna starfsfólki um launahækkanirnar í dag á mánaðarlegum fundi, en að honum hafi verið flýtt um einn dag eftir að þeim bárust fregnir af tilboði Icelandair.
Aðspurður kveðst Birgir ekki vera með nákvæmar upplýsingar um ákvæði tilboðs Icelandair enda hafi honum sjálfum ekki borist atvinnutilboð frá þeim. Eftir því sem hann best viti hafi flugmönnunum borist símtöl í gærkvöldi varðandi tilboðin og þeim gert að svara fyrir lok dags í dag.
Ef það reynist rétt þyki honum það frekar óvenjulegt miðað við hvernig slíkt gangi yfirleitt fyrir sig á vinnumarkaði. „Kannski er tilgangurinn svolítið að skemma fyrir okkur frekar en hitt.“
Birgir segir engar skriflegar uppsagnir hafa borist að svo stöddu, en að hann viti til þess að nokkrir séu að hugsa sig um.
„Ég hef ekki séð neitt formlegt uppsagnarbréf en ég á alveg von á því að þau skili sér núna fyrir miðnætti.“
„Það væri mjög skrítið ef enginn sæi sér hag í þessu örugglega mjög góða tilboði,“ segir Birgir og bætir við að það sé ávallt sárt að horfa á eftir góðu fólki, en að hann telji ekki að það eigi eftir að hafa truflandi áhrif á reksturinn enda ekkert óvanalegt við að fólk flytji sig á milli fyrirtækja.
Hann furði sig í raun á því hversu mikla athygli mál sem þessi hafa hlotið í fjölmiðlum á síðustu árum.