Fasteignafélagið Reginn hefur framlengt valfrjálst yfirtökutilboð sitt í allt hlutafé Eikar fasteignafélags, um fjórar vikur. Yfirtökutilboðið gildir því til 16. október nk.
Reginn gerði sem kunnugt er yfirtökutilboð í Eik um miðjan júní, með það fyrir augum að sameina félögin. Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að Reginn hafi þegar skilað samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins og að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hafi samþykkt umsókn Regins um framlengingu tilboðsfrests til kl. 13:00 þann 16. október 2023.
Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, segir í uppgjörstilkynningu félagsins í gær að stjórn Regins vænti þess að ljúka megi viðskiptunum innan þeirra tímamarka.
Morgunblaðið greindi frá því í lok júní að Brimgarðar ehf., sem er stærsti hluthafi Eikar, legðust gegn yfirtökutilboðinu. Í samtali við Morgunblaðið hvatti Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, hlutafa Regins til að falla frá tilboðinu. Hluthafafundur Regins samþykkti þó í byrjun júlí mótatkvæðalaust heimild til stjórnar til hækkunar hlutafjár til að efna uppgjör á yfirtökutilboðinu.
„Á hluthafafundi Regins var áréttað að áformin sem í tilboðinu felast byggjast á því að breið samstaða náist um málið og var skilyrði um lágmarkssamþykki hluthafa Eikar því hækkað í 75%,“ segir Halldór Benjamín í fyrrnefndri uppgjörstilkynningu.
„Í fyrri tilkynningum hefur komið fram að meirihluti hluthafa Eikar hefur þegar lýst yfir stuðningi við áformin á grundvelli markaðsþreifinga. Í kjölfarið hefur samtal átt sér stað við tiltekna hluthafa Eikar til að kynna áformin nánar og hlusta eftir sjónarmiðum um þær stefnuáherslur sem Reginn hefur kynnt í tengslum við tilboðið. Við væntum þess að með ítarlegri kynningu á uppgjöri Regins og nánari stefnuáherslum sameinaðs félags náist breið sátt um tilboðið meðal hluthafa Eikar.“