Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í sjálfu sér ekki nýjar fréttir að sótt sé í starfsfólk fyrirtækisins. Túristi greindi frá því í morgun að fjöldi flugmanna Play sé með atvinnutilboð frá Icelandair sem svara þarf í dag.
„Það hefur frá fyrsta degi verið sótt í starfsfólkið okkar. Ég skil það mjög vel enda hefur það staðið sig gríðarlega vel og það er í sjálfu sér jákvætt,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.
Birgir segir að fréttir af þessu tagi hafi dúkkað upp reglulega í þessi tvö ár sem flugfélagið hefur verið starfandi.
„Það er alltaf verið að tala um hópuppsagnir en það hefur ekki enn gerst. Það áttu að vera hópuppsagnir í sumar, tafir og það átti nánast að leggja sumarið af. Það voru fimm starfsmenn sem ákváðu að hætta þá,“ segir hann og heldur áfram.
„Það hafa auðvitað einstaklingar hætt og það er alltaf leiðinlegt að sjá eftir góðu fólki en það er þjóðfélagið sem við viljum búa í. Fólk fær tilboð og skiptir um vinnu og það þarf í sjálfu sér ekki að vera fréttaefni. Við höfum líka verið að ráða fólk frá Icelandair og það birtast ekki margar fréttir af því.“
Hann segir Play hafa reynt að láta fólk njóta þess að félagið sé að braggast og að rekstur þess gangi sífellt betur.
„Við erum alltaf að endurskoða kjör og reyna að aðlaga hluti eftir því sem hagur félagsins vænkast. Annars hefðum við ekki þetta fólk í vinnu, það er augljóst, sérstaklega flugmenn þar sem það ríkir alþjóðlegur flugmannaskortur.“
Birgir segir þetta þó alls ekki eiga eingöngu við flugmenn, heldur alla starfsmenn félagsins.
„Það er bara samkeppni almennt séð um fólk á Íslandi og við erum með alls konar sérfræðinga í öllum störfum. Þetta er ekki eitthvað fólk sem fær ekki vinnu annars staðar. Það er bara eins og í öllum öðrum rekstri.“
Finnið þið meiri tryggð frá ykkar starfsfólki eftir því sem það hefur fengið að finna meira fyrir því að hagur félagsins hafi vænkast?
„Ég held að fólk vilji taka þátt í einhverju nýju. Það er munur á því að vera með rödd í litlum hópi í staðinn fyrir að hverfa inn í fjöldann. Fólk vill taka þátt í einhverri uppbyggingu. Við höfum bæði innanhúss og utan verið auðmjúk með það hvernig hlutirnir ganga og höfum sagt fólki frá því og ef hlutirnir fara að ganga betur höfum við hér, eins og í öðrum fyrirtækjum, reynt að bæta kjör og aðbúnað og leyft fólki að finna að það skipti máli.
Ég vona það sem stjórnandi að fólk meti það sem verið er að gera og sjái vilja í verki. Sumir sjá hag sínum betur borgið annars staðar og ég ber virðingu fyrir því.“
Ef maður rekur fyrirtæki og er með starfsmenn sem eru eftirsóttir, þá hefur maður alltaf áhyggjur af því að missa gott fólk að sögn Birgis. Hann segist hafa séð síðast í gær að áhöfn Play er tilnefnd sem besta áhöfnin af USA Today.
„Þannig er tekið eftir því alþjóðlega að við erum með frábært starfsfólk. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því að missa það. Þess vegna erum við að gera ýmsa hluti til að bæði skapa starfsanda, starfsumhverfi og gera alls konar hluti til að halda í gott fólk en einstaklingar færa sig á milli vinnustaða, það gerist.
Hópuppsagnir hafa ekki hingað til átt sér stað og ég vona að það gerist ekki. Sem skráð félag á markaði, ef það kemur til þess að einhverjir tugir starfsmanna ganga út, þá þurfum við að tilkynna um það en það er ekkert slíkt í gangi núna.“
Forstjórinn leggur áherslu á að það sé leiðinlegt þegar gott fólk hverfi úr liðinu.
„Að sama skapi er það þjóðfélagið sem við viljum búa í. Maður vill að það sé samkeppni um fólk alveg eins og það sé samkeppni um farþega.“