Brimgarðar mildast í afstöðu til yfirtökutilboðs í Eik

Reginn hefur gert yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag.
Reginn hefur gert yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag. Eggert Jóhannesson

Ekki er útilokað að Brimgarðar, stærsti eigandi Eikar fasteignafélags, samþykki yfirtökutilboð Regins í Eik. Þó eru enn atriði sem standa út af í viðræðum á milli hluthafahópa félaganna tveggja.

Þetta segir Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, í samtali við Morgunblaðið. Regin gerði sem kunnugt er yfirtökutilboð í Eik um miðjan júní sl. Síðar í sama mánuði greindi Morgunblaðið frá því að Brimgarðar legðust gegn yfirtökutilboðinu og í samtali við blaðið hvatti Gunnar Þór stjórn Regins til að falla frá tilboðinu.

Reginn tilkynnti fyrr í þessari viku að tilboðið hefði verið lengt um fjórar vikur, fram í miðjan október nk.

Gunnar Þór segir í samtali við Morgunblaðið í dag að á þeim tíma sem liðinn er hafi stjórn Regins komið til móts við sjónarmið Brimgarða og annarra hluthafa í Eik.

„Við fögnum því að þeir séu nú að nálgast þau sjónarmið sem við höfum lagt fram í málinu,“ segir Gunnar Þór.

„Við sjáum það til að mynda í þeim kynningum sem Reginn hefur haldið nýlega, þar sem meðal annars er fjallað um væntanlega arðgreiðslustefnu félagsins og þann ávinning sem getur komið til með sameiningu félaganna.“

Spurður um það hvort að Brimgarðar hafi breytt um afstöðu í málinu segir Gunnar Þór að svo sé ekki, þó hann útiloki ekki að breyting geti átt sér stað.

„Það eru enn hlutir sem standa út af. Þar má til dæmis nefna að við teljum að skiptigengið sé enn of lágt þegar horft er til markaðsvirði félaganna og þær áætlanir sem liggja fyrir. Það er þó eitthvað sem má ræða frekar og ná samkomulagi um ef grundvöllur er fyrir slíku. Síðan er óljóst hvað kemur út úr viðræðum stjórna Reita og Eikar en það mál ætti að skýrast á næstu vikum,“ segir Gunnar Þór.

Eins og áður hefur verið greint frá eiga Brimgarðar rúmlega 29% hlut í Eik, um 16,5% með beinum hætti en afganginn í gegnum framvirka samninga, að mestu hjá Arion banka. Brimgarðar yrðu að öllu óbreyttu stærsti hluthafi sameinaðs félags, með um 16% hlut. Aftur á móti munu lífeyrissjóðir eiga um 55% hlut í sameinuðu félagi.

Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða.
Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða. Ljósmynd/Gunnar Þór Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK