Þeir flugmenn sem nú hafa sagt upp hjá flugfélaginu Play og verið ráðnir til Icelandair höfðu áður sótt um starf hjá Icelandair.
Þetta staðfestir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í samtali við mbl.is.
Um 100 flugmenn sóttu um starf hjá Icelandair fyrr á árinu. Auglýst var eftir flugmönnum með reynslu af farþegaflugi og bárust umsóknir frá flugmönnum með reynslu frá mörgum flugfélögum, meðal annars frá Play. Á þeim tíma voru þó aðeins tíu flugmenn ráðnir til Icelandair.
„Þegar ferlinu lauk síðastliðinn vetur, höfðum samband við þá sem uppfylltu okkar hæfniskröfur og spurðum hvort við mættum hafa samband við þá næst þegar kæmi til ráðninga. Það var fyrst og fremst gert til að þeir þyrftu ekki að hefja umsóknarferli upp á nýtt ef og þegar ráðið yrði í nýjar stöður hjá okkur,“ segir Bogi Nils.
„Nú erum við í ráðningaferli á ný og þá var haft samband við þennan sama hóp til að kanna hvort þessi tilteknu flugmenn hefðu áhuga á að koma til starfa núna, sem flestir völdu að gera.“
Aðspurður segir Bogi Nils að það sé rangt að flugönnunum hafi verið sett tímamörk um hvenær þeir segðu upp störfum hjá núverandi vinnuveitanda.
Bogi Nils segir að flugáætlun Icelandair horfi til frekari vaxtar og því gerist þörf á því að ráða fleiri í áhafnir félagsins.
„Við höfum áður kynnt áætlanir okkar til að hjálpa ungu fólki að hefja flugnám. Að öllu óbreyttu munum við taka upp þráðinn í því verkefni á ný,“ segir hann.