Uppsagnamálið stormur í vatnsglasi

Birgir Jónsson, forstjóri Play, kveður uppsagnamálið storm í vatnsglasi, fólk …
Birgir Jónsson, forstjóri Play, kveður uppsagnamálið storm í vatnsglasi, fólk eigi að geta skipt um vinnu telji það hag sínum betur borgið annars staðar. Morgunblaðið/Eggert

„Það er ekkert meira um þetta að segja, það eru fjórtán af 125 [flugmönnum] að segja upp og þeir fjórtán munu vinna sinn uppsagnarfrest og láta af störfum einhvern tímann í haust,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins PLAY, í samtali við mbl.is, inntur viðbragða við téðum fjórtán uppsögnum sem félagið greindi frá í morgun.

Segir Birgir nýtt fólk verða ráðið inn á þeim tíma sem nemur uppsagnarfrestinum og muni uppsagnir flugmannanna fjórtán ekki hafa áhrif á flugáætlun, rekstur eða kostnað PLAY að neinu merkjanlegu ráði.

„Auðvitað er alltaf sárt að missa góða vini og sérstaklega fólk sem hefur staðið sig vel í að byggja upp fyrirtækið og staðið sig vel í vinnunni. En eins og ég hef lagt áherslu á er þetta þjóðfélagið sem við viljum búa í, fólk á að geta skipt um vinnu sjái það hag sínum betur borgið annars staðar,“ segir forstjórinn enn fremur.

Skortur á flugmönnum í Evrópu

Birgir segir málið storm í vatnsglasi, almennt sé ekki verið að hringja í fyrirtæki um mánaðamót og spyrja hvort menn ætli að hætta. „Það var fullt af öðru fólki sem fékk þessi símtöl og vildi ekki fara, við hækkuðum auðvitað launin. Við vitum, og erum búin að vita í allt sumar, að það er skortur á flugmönnum í Evrópu og það lá fyrir að það þurfti að hækka til að fá fólk,“ segir Birgir.

Hjá PLAY ríki enginn ótti um að ekki verði hægt að manna þær stöður sem losna, sérstaklega eftir launabreytinguna. „Þess vegna settum við það fram í þessari tilkynningu að þetta muni ekki hafa nein áhrif á reksturinn sem slíkan, við höfum ekki áhyggjur af því, en auðvitað er alltaf slæmt að missa gott fólk.“

Geta farið í vinnu út um allt

Mun PLAY þá leggja áherslu á að ráða til sín íslenska flugmenn eða er heimurinn undir?

„Það eru alveg til íslenskir flugmenn sem við erum í samtali við og hafa áhuga á að koma og það eru líka erlendir aðilar, við erum með fólk frá 29 þjóðlöndum sem vinnur hjá okkur og erum bara stolt af því, þetta er fólk sem er á íslenskum kjarasamningum og íslenskum launum og borgar sína skatta hér.

En flugmenn sem eru með þessi alþjóðlegu réttindi geta farið í vinnu út um allt hjá evrópskum flugfélögum og það virkar alveg eins fyrir okkur og aðra, fólk er að hætta hér til a fara út og þetta er ekkert fyrsta fólkið sem segir upp hjá okkur og fær sér aðra vinnu,“ segir Birgir.

Að lokum segir hann uppsagnamálið „mikið drama út af litlum hlut“, hann finni það á fjölmiðlafólki að þar hafi verið búist við að PLAY hafi verið greitt þungt högg. „En þannig er það nú bara ekki,“ segir Birgir Jónsson forstjóri að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka