Kaupin á vatnsverksmiðju Jóns gengin í gegn

Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Water Holdings.
Jón Ólafsson, stofnandi Icelandic Water Holdings.

Félagið Iceland Star Property og bandaríska fjárfestingafélagið Blackrock hafa eignast meirihluta í Icelandic Water Holdings, fyrirtækinu sem selur vatn undir merkjum Icelandic Glacial um heim allan.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Water Holdings.

Með því hafa feðgarnir Jón Ólafsson og Kristján Jónsson selt stóran hlut í vatnsfyrirtækinu sem þeir stofnuðu árið 2004.

Vatnslind Icelandic Water Holdings er í Ölfusi. Samkvæmt ársreikningi fyrirtækisins fyrir árið 2021 mat erlenda félagið Zenith International Ltd. vatnslindina þá á 137 milljónir bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 18,4 milljörðum króna á núverandi gengi. Sala á vatni Icelandic Glacial í gegnum vefsíðuna Amazon hefur verið veigamikill þáttur í tekjuöflun fyrirtækisins en Bandaríkin eru langstærsti markaðurinn. Það hefur flutt vatn til Asíu, þ.m.t. Taílands.

Skráð í Liecthenstein

Iceland Star Property er eignarhaldsfélag í Liechtenstein. Fram kom í samtali Morgunblaðsins við Jón Ólafsson 11. ágúst að alþjóðlegur hópur fjárfesta sé að baki kaupunum.

„Það er okkur ánægja að njóta þessa stuðnings fjölbreytts hóps fjárfesta víðsvegar að úr heiminum,“ er haft eftir Jóni Ólafssyni, stofnanda fyrirtækisins, í tilkynningunni en hann mun starfa sem sendiherra fyrir vörumerkið um heim allan. Hefur Jón látið af stjórnarformennsku í fyrirtækinu.

„Fjárfesting þeirra í fyrirtæki okkar rennur stoðum undir þann árangur sem við höfum náð á undanförnum árum í að verða eitt af leiðandi vörumerkjum fyrir hágæðavatn í heiminum,“ er jafnframt haft eftir Jóni.

Verði þekkt um heim allan

Dan Worrell er stjórnandi hjá Blackrock og einn nýrra stjórnarmanna í Icelandic Water Holdings. Ný stjórn var skipuð 12. júní.

Haft er eftir Worrell í tilkynningunni að fulltrúar Blackrock hlakki til að vinna með stjórn Icelandic Water Holdings og nýjum hluthöfum til að efla Icelandic Glacial vatnið sem alþjóðlega þekkt vörumerki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK